151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[13:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum hingað komin til að afgreiða frumvarp um lífmassa í fiskeldi sem tekið var af dagskrá í gær en er komið aftur til atkvæðagreiðslu óbreytt. Við í Miðflokknum teljum að nota hefði átt tækifærið við umfjöllun um frumvarpið til að bæta úr ákveðnum ágöllum sem við teljum að hafi komið fram við málsmeðferðarferli umsókna af hálfu fiskeldisfyrirtækja. Óskýrt er af hverju lögin tóku ekki gildi fyrr en fjórum vikum eftir að þau voru samþykkt vorið 2019. Nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar vekur ýmsar spurningar um framkvæmd á vettvangi stofnana. Niðurstaða meiri hlutans var að hafast ekkert að í málinu að þessu leyti. Þrátt fyrir óánægju okkar við þá útkomu sjáum við okkur ekki annað fært en að leggja þessu máli lið, svo langt sem það nær í öðrum efnum. En við munum nota þau tækifæri sem gefast til að taka málið upp að nýju.