151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Við getum farið í gegnum það síðar hver viðbrögðin voru og menn vissu hvert stefndi með WOW. En það var hins vegar ekki brugðist við falli WOW á sínum tíma og áhrifum þess á efnahagsmálin. En örstutt hér tímans vegna: Ein af lykilforsendum á bak við þann efnahagsbata sem lagt er upp með í þessari áætlun er koma ferðamanna á þessu ári. Nú er það þannig að dekkri horfur blasa við ef þær forsendur ganga ekki eftir. Það hefur hins vegar komið fram og kom fram á fundi fjárlaganefndar með fulltrúa frá ferðaþjónustunni að þetta sé fullbjartsýnt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ferðaþjónustan sjálf telur þetta of mikla bjartsýni. Það kann að vera að vöxtur ferðaþjónustunnar verði grundvöllur efnahagsbatans á næstu árum en þetta eru hins vegar óraunsæjar tölur, þegar við horfum t.d. á að 2022 og 2023 komi hingað 2 milljónir ferðamanna. Ég hefði viljað fá viðbrögð hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar við þessu, (Forseti hringir.) hvort hér sé ekki um óraunhæfa bjartsýni að ræða þegar kemur að komu ferðamanna og þætti ferðaþjónustunnar í því að reisa við efnahaginn.