151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg mikið upp úr því að vera sanngjarn. Ég gagnrýni harðlega en ég viðurkenni líka það sem vel er gert þegar svo ber undir. Og já, ég skal taka undir það að árangurinn í sóttvarnaaðgerðunum og í rauninni biðtímaaðgerðum hefur verið nokkuð góður. Ég myndi gefa honum svona níu í einkunn til að reyna að vera sanngjarn, ég dreg það svona upp úr hattinum. Það sem ég hef gagnrýnt og sagt að vanti er hvað tekur við. Stefnan var alltaf sett á að hagkerfið tæki bara við, að við settum allt í pásu og svo myndi allt byrja aftur eins og það var. Í rauninni hefur aldrei neitt annað en það verið sett fram. Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni hvernig sérstaka fjárfestingarframlagið var það eina sem var að byggja upp til framtíðar, sem var með einhvern ábata sem við gætum unnið með eftir að Covid kláraðist. Þær aðgerðir sem var farið í varðandi biðina heppnuðust ekki allar. Þær voru ekki nýttar, sem sagt brúarlánin o.s.frv. Ríkisábyrgðin var „disaster“ og kannski lækka ég einkunnina niður í átta út af því, hver veit? Ég hef verið að kvarta undan því að uppbygginguna vanti. Ef við ætlum að vaxa út úr niðursveiflunni er ekki nóg að treysta bara á að ferðaþjónustan geri það ein og óstudd. Það var vandamál áður en faraldurinn kom hvernig ástandið var þar. Ég held að við komum til með að vaxa út úr þessu ástandi með hjálp ferðaþjónustunnar einnar saman út af t.d. bara eldgosinu. Það kemur örugglega til með að hjálpa heilan helling og laða að enn þá fleiri ferðamenn á næsta ári en við erum að búast við samkvæmt áætlunum. En við þurfum meira. (Forseti hringir.) Það hefur alltaf verið vitað. Ég er að gagnrýna að þessa aukastoð nýsköpunar vantar.