151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni prýðisræðu og þakka honum samvinnu í hv. fjárlaganefnd. Það er kannski ekki undarlegt að ég ætli að vera á svipuðum nótum og hv. þm. Haraldur Benediktsson sem var fyrr í andsvari við hv. þingmann. Hv. þingmaður kom inn á það hvernig við göngum frá fjármálaáætlun 2022–2026 sem fellur sannarlega utan kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar en er framreikningur á nýsamþykktri áætlun frá því í desember sem fellur til á lokaári þessarar ríkisstjórnar og fjárlögin byggja þá á. Þar er ítarleg stefnumörkun málefnasviða sem byggir á endurskoðaðri stefnu frá því í september á síðasta ári.

Ég spyr: Er ekki sanngirni að horfa til þess að svo sé háttað? Þetta er auðvitað svolítið tæknilegt. Lögin um opinber fjármál eru ekki alveg skýr um það hvernig við förum með þetta á kosningaári. En má ekki snúa þessu við og segja: Ef hér hefði verið sett fram ítarleg stefnumörkun inn á næsta kjörtímabil — og ný ríkisstjórn mun jú setja fram sína stefnu og byggja fjárlögin og endurskoða áætlun 2023–2027 og fjárlög þeirrar ríkisstjórnar hvíla á því — hefði það ekki verið eilítið ósanngjarnt ef við snúum þessu við? Getum við ekki líka sagt að þetta sé pínu ærleg nálgun?