151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

hækkanir almannatrygginga og launaþróun.

[13:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég rakti það hér í fyrirspurn við annan hv. þingmann fyrr í þessum fyrirspurnatíma að forsendur eða lykilatriði þegar kemur að aukningu til málaflokksins — við höfum aukið um 4 milljarða á þessu kjörtímabili. Við verðum að skoða þá raunaukningu sem er til málaflokksins í heild. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Nú er ég að svara hv. þingmanni. Á síðustu fjórum til fimm árum hefur aukist og nánast tvöfaldast það heildarfjármagn á verðlagi hvers árs sem rennur til málaflokksins. Við höfum haft áhyggjur af því vegna þess að það er veruleg hætta. Þegar við horfum á þessa þróun til framtíðar þá verðum við að ná að grípa þarna inn í og okkur er að takast það núna. Kerfisbreytingin sem verið var að tala um hér átti að gera það líka. Þannig að þegar talað er um að ekkert hafi verið gert fyrir málaflokkinn — við höfum varið þetta með þessum hætti. Staðan árið 2016 var sú að þá runnu 45–50 milljarðar til málaflokksins, en nú eru það tæpir 80 milljarðar á verðlagi hvers árs sem renna til málaflokksins og það er að verja stöðuna. (Forseti hringir.) En hins vegar er líka mikilvægt að við náum að stíga þessi skref og það tekst þegar við förum í þessa kerfisbreytingu og samhliða henni.