151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það ber að skilja orð mín svo, eins og hv. þingmaður vísar til, að við búumst við fjáraukafrumvarpi fyrir þinglokin í vor. Verði það ekki afgreitt þá höfum við varasjóði, sem er reyndar þrengri kostur svo að ég segi það líka. Við gerum ekki lítið úr vanda hjúkrunarheimila, síður en svo, en það eru líka fleiri leiðir en bara hækkun daggjalda sem geta haft áhrif þar og nefni ég þætti sem meiri hluti fjárlaganefndar fjallar um í áliti sínu með fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var í haust eins og meðferð lyfjakostnaðar og hjálpartækja. Við nefnum húsnæðiskostnað ekki síst, þannig að það eru þá fleiri en ein leið, fleiri en einungis hækkun daggjalda. Meiri hluti fjárlaganefndar steig ekki það spor að ákveða hækkun daggjalda fram í tímann. Það er allt annað og dýpra ferli sem þarf að fara fram áður en við grípum þá tölu úr loftinu til að skella sisvona inn í fjármálaáætlun. Ég sagði hér áðan, hæstv. forseti, að við hefðum ekki endilega getað dregið hina einu réttu tölu út úr svokallaðri Gylfaskýrslu en eftir málþing Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í dag þar sem þetta var rætt held ég að hafi nú myndast skilningur og stuðningur við það sem meiri hlutinn lætur frá sér fara í meirihlutaáliti sínu með þeirri fjármálaáætlun sem við erum að vinna hér.

En verkefnið er ekki farið frá okkur. Verkefnið er risastórt. Verkefnið er að bregðast við því að stöðugt verður fólk veikara og eldra sem kemur inn á heimilin. Þar hefur meðalaldur hækkað ótrúlega hratt á ótrúlega stuttum tíma, frá því að við gengum síðast í að bæta rekstrarskilyrði heimilanna. Þetta eru verkefni sem við erum að setja í okkar afgreiðslu núna, og verður þá að vera kominn botn í þau fyrir fjárlagagerðina í haust til lengri tíma, auk skipulagsbreytinga. Ég held að flestir flokkar sem sitja á Alþingi (Forseti hringir.) hafi talað fyrir því að stokka upp málaflokkinn og nálgast hann með öðrum hætti því að við munum ekki geta byggt (Forseti hringir.) hjúkrunarrými yfir alla aldraða á komandi árum.