151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stutta svarið er að mínu mati að svo sé ekki. Eins og við munum var komið upp ákveðnu umbunarkerfi. Fólki var umbunað fyrir hraða og góða námsframvindu en sú umbun var niðurgreidd af þeim námsmönnum sem ekki áttu þess kost vegna aðstæðna sinna og/eða vegna annarra ástæðna að vera með jafn hraða námsframvindu og það fólk sem fékk lánum sínum breytt í styrki. Eftir situr kannski margt fólk með sárt ennið og ekki síst nú á tímum þar sem atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og sérstaklega erfitt fyrir unga námsmenn að finna vinnu vegna þess að þeir hafa löngum reitt sig á alls kyns þjónustustörf og átt auðvelt með að ganga í slík störf sem ekki eru á lausu núna.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður vék að fyrst. Ég er alveg sammála því, og það var í rauninni kjarninn í því sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það er of erfitt og flókið að vera venjulegt fólk á Íslandi. Þannig er það enn og hefur verið um árabil. Það að fullnægja grunnþörfum á borð við húsnæði og að fæða og klæða fjölskyldu sína er of erfitt.