151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Þetta snýst allt um forgangsröðun. Hér erum við auðvitað að tala um stóru myndina. Við erum að tala um fjármálaáætlun til næstu fimm ára en ekki nákvæmlega hvert peningarnir eiga að fara í hvert sinn. En samt er ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta er stefnuplaggið og ef fólk ætlar ekki að setja aukið fjármagn í ákveðna málaflokka heldur halda sama fjármagni kallar það á það, ætli fólk í stórsókn í einhverjum málum, að féð verði tekið af einhvers staðar annars staðar.

Talandi um átröskunarteymið, og átröskun sem er ein tegund geðsjúkdóma, þá er enginn geðlæknir starfandi þar í dag. Teymið hefur verið á hrakhólum. Það að senda fólk í bráðavanda, í sjálfsvígshættu, frá þjónustu og segja því að mæta aftur á mánudag þegar opnað er aftur, og mögulega sé einhver þá til að tala við viðkomandi, er einfaldlega ekki í boði. Það að ætla að fjölga geðheilsuteymum er góðra gjalda vert en það er ekki í boði á sama tíma að draga úr þjónustu annars staðar. Þegar það sem á að vera viðbót, hvar sem er í kerfinu, birtist af hálfu ríkisstjórnarinnar þannig að það séu ný úrræði sem læðast af stað en grafið er undan eldri úrræðum þá leiðir það bara til mun meira tjóns um allt kerfið, eins og ég kom inn á í ræðu minni. (Forseti hringir.) Þetta er bara pólitísk ákvörðun, hv. þingmaður, og á henni ber ríkisstjórnin og þeir flokkar sem að henni standa ábyrgð.