Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

vanfjármögnun hjúkrunarheimila.

[13:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Minn vilji stóð til þess að gera það þannig að rekstur öldrunarheimilanna á Akureyri færi undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Svo virtist sem um væri að ræða of stóra einingu fyrir rekstur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og það gerði það að verkum að við þurftum að leita annarra leiða. Af því að hv. þingmaður er sérstaklega að spyrja um þá ákvörðun sem tekin er núna á þessu ári, um þennan milljarð, þá stendur minn vilji til þess að þetta sé fyrsta skrefið í því að endurmeta rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. Það eru enn þá nokkur atriði sem standa út af og við sjáum í skýrslu Gylfa það eru spurningar sem enn þá er ósvarað, það lýtur að launakostnaði en líka að því að þarna er ríflega fjórðungur þessara hjúkrunarheimila sem rekur sig innan rammans og við þurfum að finna út úr því hver munurinn er. Ég held að allir sem að málinu koma núna átti sig á því að við þurfum að grafa betur í gögnin, fá betri upplýsingar, en líka er það staðreynd að þeir sem eru við borðið átta sig á því að það þarf að endurmeta þennan grunn.