151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

njósnir Samherja.

[13:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú á þetta símtal, sem ég byggi m.a. á orðum ráðuneytisstjórans, sér stað í kjölfar þess að fréttir berast af því að setið sé um Helga Seljan á kaffihúsi sem hann er á; hann fær ógnandi skilaboð frá Samherjamönnum og það er almennt í því gert að fylgja honum eftir og láta honum líða eins og hann sé ekki hundrað prósent öruggur. Nú veit ég að hæstv. utanríkisráðherra er annt um öryggi blaðamanna, a.m.k. á erlendri grundu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að þetta gerist í kjölfarið á fyrrgreindum atburðum, sem öllum ætti að vera kunnugt um, hvort ekki hafi verið tilefni til þess að láta Helga vita af þessum eftirgrennslunum fyrirtækisins, hvort honum finnist eðlilegt að svona samtal eigi sér stað án þess að um það sé tilkynnt og hvað honum finnist almennt um það að stórfyrirtæki séu að reyna að njósna um ferðir íslenskra fréttamanna á erlendri grundu. Hvað segir hæstv. ráðherra við slíkum njósnaleiðöngrum stórfyrirtækja gagnvart íslenskum blaðamönnum?