151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni um að taflan er mjög athyglisverð vegna þess að hún sýnir og dregur saman heildarumfang aðgerðanna sem við höfum gripið til á undanförnum tveimur árum, árið í fyrra og í ár. Varðandi bankaskattinn sérstaklega þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri rétt að láta þann tímabundna skatt — þetta var skattur sem var kynntur sem tímabundin aðgerð — renna sitt skeið og láta fjármálastarfsemina í landinu búa við almenn rekstrarskilyrði eins og önnur fyrirtæki. Hverju hefur það skilað? Ja, það skilaði auðvitað miklu betri viðnámsþrótti í fjármálakerfinu ásamt því sem Seðlabankinn gerði. Það var ekki bara bankaskattur sem var lækkaður heldur létti Seðlabankinn af fjármálakerfinu í heild sinni sveiflujöfnunaraukanum og dró úr öðrum kröfum sem gerði það að verkum að fjármálakerfið gat staðið með heimilum og fyrirtækjum. Og við höfum séð sögulega mjög lág vanskil í fjármálakerfinu, hvort sem litið er til heimila eða fyrirtækja, og lítið af stórum vandamálum.