151. löggjafarþing — 103. fundur,  31. maí 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það líður nú að lokum þings á þessu vori. Það þýðir að farið er að styttast í kjörtímabilinu þannig að þetta eru nú sennilega síðustu verk ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í fjármálum ríkisins á þessu kjörtímabili. Þetta frumvarp sem hér liggur fyrir til fjáraukalaga er að mestu leyti staðfesting á aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til og er verið að finna þeim, réttan farveg með því að leggja þetta fram í frumvarpi til fjáraukalaga. Það hjálpar til við að við getum öll áttað okkur betur á því hvernig þetta ár hefur liðið í fjárhagslegu tilliti og hvernig við höfum fjármagnað þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og er það vel. Það verður samt sem áður ekki komist hjá því að minnast á að það var kannski ekki fyrsta hugmynd ríkisstjórnarinnar en ég tel að fjárlaganefnd hafi haft áhrif á ríkisstjórnina, á fjármálaráðuneytið, í þá veru að setja þetta fram með þessum hætti og því ber auðvitað að fagna.

Það er bæði rétt og skylt að geta þess að það er ein undantekning á því að hér sé fyrst og fremst um staðfestingu að ræða á því sem þegar hefur verið ákveðið og það er framlag til reksturs hjúkrunarheimila. Hér er gert ráð fyrir því að þau fái 1 milljarð kr. til hækkunar á daggjöldum til reksturs síns og það er vel. Ég ætla nú að leyfa mér að fullyrða að þessir fjármunir séu ekki nægir, a.m.k. ef maður tekur mark á því sem fram hefur komið, bæði af hálfu þeirra hjúkrunarheimila sem rekin eru af einkaaðilum en einnig þeirra sem rekin eru af sveitarfélögunum, um að þetta dugi ekki til. Það hefur verið bent á að það vantar talsvert upp á að mörg heimili geti veitt þá þjónustu sem mælt er fyrir um af hálfu landlæknis.

Það hafa verið nefndar ýmsar tölur um þetta og þetta er kannski ekki alveg nákvæmlega vitað þannig að það má segja að ríkisvaldinu sé hugsanlega einhver vorkunn í því. En það hafa verið nefndar tölur og þá erum við bæði að tala um það sem vantar upp á hinn daglega rekstur og síðan uppsafnaðan halla, því að við vitum það öll að það hefur þurft að borga með, sveitarfélögin hafa þurft að borga með hjúkrunarheimilum í mörgum tilvikum. Þetta eru því umtalsverðar upphæðir og maður myndi halda að þarna hefði þetta þurft að vera a.m.k. tvisvar sinnum ef ekki þrisvar sinnum meira til að ná einhverju jafnvægi. En virða skal þessa viðleitni þó að að mínu mati sé hún ekki fullnægjandi.

Það stingur líka örlítið í stúf hvernig þetta er sett upp. Þessi fjárveiting eða fjárheimild er skilyrt því að samningar við þessi heimili verði framlengdir þannig að hún nær þá svolítið inn á næsta kjörtímabil. Það á að framlengja samningana til loka febrúar 2022 og má segja að með þessum hætti sé verið að velta á undan sér vandanum. Það verði þá næstu ríkisstjórnar að takast á við hann. En það kann að vera að það þyki ekki neitt tiltökumál, a.m.k. ræða ríkisstjórnarflokkarnir um að þeir ætli að taka hér við og halda áfram, taka við af sjálfum sér og halda áfram, þannig að þetta verður þeirra höfuðverkur áfram samkvæmt því. Annars verður það höfuðverkur fyrir aðra þá sem mynda stjórnina.

Það er ágætt að nota þetta tækifæri og velta fyrir sér almennt hvernig til hefur tekist í fjármálum ríkisins. Ég vil hlaupa að nokkru leyti yfir þennan Covid-tíma, sem vissulega er óvenjulegur og hefur vissulega valdið miklum erfiðleikum og kallað á aðgerðir sem verið hafa kostnaðarsamar. Ég held að ég fari algjörlega rétt með að við í Viðreisn og raunar held ég að ég geti reiknað það út og sagt að öll stjórnarandstaðan hafi verið samhuga um að greiða götu þessara aðgerða og hjálpa til við að koma þeim á koppinn. Við höfum auðvitað lagt fram aðrar hugmyndir, aðrar tillögur. Við höfum lagt fram aðrar leiðir í ýmsum tilvikum sem reyndar hefur lítt eða ekkert verið hlustað á. Engu að síður höfum við stutt við þetta þannig að það er fullkomlega sanngjarnt að segja að það er ekki ríkisstjórnin ein sem hefur komist í gegnum Covid heldur hefur þingið allt og allir þingmenn stutt hana dyggilega til góðra verka í því samhengi.

Ég vil meira líta til þess hvernig staðan var áður en við lentum í þessum hremmingum. Það verður að segjast eins og er að þar fær ríkisstjórnin ekki góða einkunn. Og það er ekki bara ég eða við í Viðreisn sem bendum á það heldur hefur ítrekað verið bent á það, af þeim sem eru okkur til ráðuneytis og veita umsagnir um fjárlög og fjáraukalög og fjármálaáætlanir og fjármálastefnu, að það hafi verið komið í óefni þegar á árinu 2019 og ríkissjóður rekinn með halla. Þess vegna sitjum við uppi með það að við höfum undirliggjandi vandamál sem varð til fyrir Covid og það er til áfram eftir Covid og ef eitthvað er hefur það vaxið. Þetta snýr sem sagt að því að skuldir ríkissjóðs hafa stóraukist, hallareksturinn hefur aukist og ríkið hefur að mörgu leyti þanist út, ríkisfjármálin hafa þanist út. Það er auðvitað umhugsunarvert, sérstaklega þegar menn horfa til þess að nú eru prófkjör yfirstandandi í einum stjórnarflokknum og nú tala þeir helst um að báknið sé allt of stórt og það þurfi að gera eitthvað í því. En það er eins og þetta ágæta fólk hafi verið fjarverandi að mestu þau 70 ár sem sá ágæti flokkur hefur staðið meira og minna í stafni hér og þetta kemur þeim nokkuð á óvart.

Við stöndum frammi fyrir þessum vanda, við þurfum að takast á við þessar afleiðingar í framtíðinni, fyrst og fremst þær miklu skuldir og þann halla sem búið er að koma upp í rekstri ríkisins og að auki er atvinnulífið, stór hluti þess, umtalsverður hluti þess, enn í vandræðum og mun verða í vandræðum á næstu misserum. Vonandi er þó að birta mjög hratt til og vonandi fer líka að birta hratt til hjá fólki sem misst hefur vinnuna, misst viðurværi sitt. Það virðist þó vera þannig að atvinnuleysi sé að festa sig í sessi í ríkara mæli, þ.e. hærra stig en við eigum að venjast. Það er líka langtímaatvinnuleysi sem við eigum ekki að venjast. Þetta er líka að gerast á sama tíma og atvinnuþátttaka er að minnka þannig að það eru mörg óheillamerki á lofti sem þarf að takast á við og hefði mátt gera betur. En í framtíðinni þarf að takast á við þetta, það er engin spurning.

Ég er þeirrar skoðunar, og tel það rétt, að það hljóti að vera markmið komandi stjórnvalda að reyna að feta þá leið að þurfa ekki að fara í umtalsverðar skattahækkanir, helst engar, en um leið að þurfa ekki að skera niður nauðsynlega þjónustu eða skera niður þjónustu en hins vegar sé verkefnið að leita leiða til að fara vel með hið opinbera fé sem við höfum til ráðstöfunar. Það tel ég að sé hægt að gera og það sé eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Við erum með mjög stóra útgjaldaliði sem er hægt að líta til. Markmiðið þar á sem sagt fyrst og fremst að vera: Getum við gert betur án þess að skerða þjónustuna? Annað markmiðið: Getum við gert enn betur, hugsanlega fyrir minna fé án þess að skerða þjónustuna? Þetta eru viðfangsefni sem við þurfum að takast á við.

Síðan er rétt að ræða aðeins að það eru auðvitað mjög stór mál sem koma mjög víða við. Ég vil sérstaklega nefna þau áhrif sem gjaldmiðillinn okkar hefur á afkomu hins opinbera, afkomu heimilanna, afkomu fyrirtækjanna og afkomu sveitarfélaganna. Þetta höfum við í Viðreisn talað um lengi, en þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það er mér eiginlega óskiljanlegt hvers vegna ekki fæst um þetta alvöruumræða þar sem menn reyna að leggja mat á þetta. Það er gjarnan talað um þá sem tala um þessi mál sem helst eins máls flokka, en þá finnst mér að menn gleymi því að gjaldmiðillinn og áhrif hans eru um allt samfélagið, hafa áhrif á allt samfélagið. Aðild að Evrópusambandinu hefur líka áhrif á allt samfélagið og við skulum þá horfa á það þannig. Þetta er eitt mál með gríðarlega marga anga og hefur gríðarlega mikil áhrif á allt samfélagið.

Mér dettur í hug að ég var að glugga í ágrip af nýrri skýrslu sem verið var að kynna í landbúnaðarráðuneytinu um stöðu landbúnaðarins. Mér fannst sóknarfæri þar og mér fannst það athyglisvert og ætla að lesa aðeins upp úr ágripinu. Mér fannst það stórkostlega merkilegt vegna þess að það er mjög oft talað um það að þeir sem tala um aðild að Evrópusambandinu og þess háttar séu á móti bændum. En það er nú aldeilis ekki þannig. Við erum að reyna að benda á það að hagur stéttar á borð við bænda myndi batna. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni er reynt að gefa nokkra mynd af sauðfjárrækt á heimsvísu. Skilaverð lambakjöts til bænda í ESB var 80% hærra en á Íslandi árið 2020. Í þeim Evrópulöndum þar sem hvað hæst verð er til bænda er framleiðslan lítil miðað við höfðatölu, og innflutningur töluverður.“

Síðar í ágripinu sem ég vitna til er verið að tala um áhrif gengismála á afkomu bænda. Það er ekki nóg með að það hafi áhrif þegar verið er að flytja út, það hefur ekki síður áhrif á innanlandsmarkaðinn og þetta dregur mjög verulega saman allan fyrirsjáanleika í landbúnaði eins og ég er að fara hér yfir. Þess vegna er þetta bara eitt lítið dæmi um það sem ég var að segja um að þessi mál hafa áhrif vítt og breitt (Forseti hringir.) í samfélaginu. En ég sé það, herra forseti, að tími minn er búinn þannig að mér sýnist óhjákvæmilegt að fara í aðra ræðu og bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.