151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Eins og flestir þekkja hefur umhverfið í málaflokknum gjörbreyst undanfarin ár og þróunin að því leytinu til verið jákvæð, eins og ég ætla að fara hér yfir. Hér koma fram nokkrar spurningar, sumar tæknilegar, og það kallar þá á tæknileg svör.

Fyrst er spurningin um hver stór hluti úrvalsvísitölu Kauphallarinnar hafi verið í eigu aflandsfélaga í árslok síðasta árs og hve stór hluti þeirra félaga sé í eigu Íslendinga. Í aðdraganda þessarar umræðu óskaði ég eftir upplýsingum um þessi mál frá Skattinum og helstu aðrar spurningar reyndar sömuleiðis. Í svarinu kemur fram að ekkert bendi til aflandstenginga af hluthöfum þeirra tíu félaga sem mynda vísitöluna og ekki virðist um neitt beint eignarhald í aflandsfélögum að ræða af þeim sökum.

Spurt er um hvað vitað sé um umfang aflandsvæðingar á íslenskt efnahagslíf síðastliðinn áratug og hvernig skattundanskot og sniðganga hafi þróast. Samkvæmt Skattinum virðast bæði skattundanskot og sniðganga hafa minnkað á undanförnum árum. Það hefur gerst m.a. vegna upplýsingaskiptasamninga sem við höfum undirritað síðustu ár. Það gætir meira gagnsæis í öðrum ríkjum sömuleiðis og það eru breyttar reglur hér á landi. Ný lög skipta máli. Hér má nefna lög um skráningu raunverulegra eigenda og síðast í gær vorum við að samþykkja lög um upptöku sektarákvæða vegna milliverðlagningar mála.

Enn fremur hefur verið bent á breytt viðhorf skattaðila í kjölfar mikillar opinberrar umræðu. Þessir upplýsingaskiptasamningar hafa sýnt fólki fram á að það þýðir lítið að reyna felast vegna þess að nú hafa ríki gert með sér samninga um að skiptast á upplýsingum. Auðvitað skiptir hér líka máli að hóflegar og sanngjarnar álögur séu til staðar þannig að hvatarnir séu teknir í burtu. Almennt er það talið minnka líkurnar á skattasniðgöngu eða undanskotum.

Hvað varðar eftirlit með milliríkjaviðskiptum og ólögmætri milliverðlagningu hefur samkvæmt upplýsingum frá Skattinum eftirlit embættisins m.a. beinst að aðilum sem annast útflutning, innflutning og viðskipti yfir landamæri. Eftirlitið beinist að öllum þeim atriðum sem talin eru upp í spurningum hv. þingmanns, en auk þess að fleiri þáttum á borð við vexti, þóknanir, þjónustu og sölu á efnislegum og óefnislegum eignum.

Þegar kemur að rannsóknum á óskráðum fjármagnstilfærslum er það Seðlabankans að hafa eftirlit með því. Þar er málið að hafa eftirlit með aðgerðum tilkynningarskyldra aðila til varnar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að það sé allt í samræmi við lög. Seðlabanki safnar upplýsingum um gjaldeyrisviðskipti innan lands og fjármagnshreyfingar milli landa. Ef tilefni gefst eru upplýsingar sendar til lögreglunnar, en fjármála- og efnahagsráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um einstakar rannsóknir slíkra mála.

Hentiskráning eigna og tekna íslenskra fyrirtækja hefur ekki verið kortlögð sérstaklega, en samkvæmt upplýsingum frá Skattinum er þetta meðal þeirra atriða sem koma til athugunar þegar einstök félög eru til skoðunar. Í þessu samhengi má benda á nýlegan héraðsdóm þar sem mál hófst á vegum Skattsins gegn íslensku fyrirtæki vegna ástands sem lýst er í spurningu hv. þingmanns.

Varðandi kaupskipaflotann verðum við líka að spyrja okkur hver ástæðan er fyrir því að kaupskipin hafa ekki verið um langt árabil skráð á Íslandi. Það er ekki gott mál og þingið hefur svo sem tekið það áður til umræðu.

Loks er spurt í hverju þátttaka Íslendinga á alþjóðavísu í aðgerðum gegn skattaskjólum felist. Því er til að svara að þátttaka okkar felst til að mynda í alþjóðasamstarfi og samvinnu. Þetta á sér stað á ýmsum vettvangi, en undanfarin ár hef ég undirritað fjölda tvíhliða upplýsingaskiptasamninga sem m.a. eiga rætur sínar í vinnu OECD. Slíkir samningar hafa hlotið aukið vægi. Þar má nefna CRS, sem er samræmdur staðall um upplýsingaskipti á fjárhagsupplýsingum landa utan Bandaríkjanna. Einnig má nefna FATCA upplýsingaskiptasamninginn milli Bandaríkjanna og Íslands, þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu fjármálastofnana og upplýsingaskipti milli ríkjanna. Þá hafa afnot af alþjóðlegum gagnagrunnum reynst vel við skatteftirlit.

Að lokum vil ég segja að aflandsfélögin sem slík eru ekki ólögleg að íslenskum lögum. Við segjum hins vegar í skattalögunum að við skilgreinum það sem lágskattaríki þar sem tekjuskattur er tveimur þriðju lægri en á Íslandi. Við samþykkjum ekki slíka skattlagningu og skattleggjum slíka starfsemi á Íslandi samkvæmt íslenskum skattareglum. Þetta er lykilatriði og þessu höfum við verið að breyta á undanförnum árum. Þess vegna stendur dálítið upp úr spurningin hvort málshefjandi telji að í skattareglunum sé einhverju ábótavant eða ekki.