151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Um 60 lönd í heiminum hafa hagsmuni af því að bjóða upp á leynd eða skattahagræði umfram það sem eðlilegt gæti talist. Þessi lönd eru gjarnan kölluð aflandseyjar, en sum þeirra svæsnustu eru þó alls engin eylönd heldur bara borgir og stærri ríki. Ýmist bjóða þau upp á auðveldar leiðir til að fela eignir eða eignarhald eins og Belís, eða lága eða enga skatta eins og Bresku Jómfrúreyjar, eða hentugar leiðir til að sniðganga regluverk annarra ríkja eins og Kýpur eða Panama. Það er vel þekkt að fjölmargir Íslendingar hafa nýtt sér slík skattaskjól og aðrar aflandsþjónustur. Það er jafnframt þekkt að einhverjir hv. þingmenn hafi gert það. Þekktur fjöldi hleypur á hundruðum. Það kemur ekki á óvart því að það er algengt fyrsta skref þeirra sem eignast einhvern pening að ráði að reyna að finna leiðir til að tryggja hann, ávaxta hann og helst án þess að ríkisvaldið sé að skipta sér of mikið af. Það eru ekki bara einstaklingar heldur einnig fyrirtæki sem nýta sér þessi aflandssvæði, bæði til að lækka opinber gjöld en líka oft til þess að liðka fyrir viðskiptum, einkum þegar um er að ræða stærri fyrirtæki með einhvern hluta síns reksturs í þróunarlöndum. Þannig er mat Global Financial Integrity Project frá 2008 að um 1.200 milljarðar dollara flæði með ólögmætum hætti frá þróunarlöndum árlega, sem er rúmlega hundraðföld öll þróunaraðstoð heims. Cayman-eyjar hafa gefið upp fjármagns- og eignarskráningar upp á rúmlega 2.000 milljarða dollara. Ekkert af þessu ætti í sjálfu sér að koma neinum á óvart. Sumt af þessu er ólöglegt, sumt af þessu löglegt, flest er þetta kannski á siðferðislega gráu svæðið ef ekki kolbikasvörtu. Þó er rétt að nefna að það eru bæði til lögmætar og siðferðislega réttmætar ástæður til að reka fyrirtæki eða eiga eignir í slíkum löndum og í því felst vandinn að einhverju leyti.

Forseti. Spurningin er: Hvað ætlum við að gera? Ýmsar leiðir eru til, t.d. alþjóðleg samvinna um lágmarksskatthlutfall, gagnsæi í bankaviðskiptum, viðmiðunarreglur um milliverðlagningu, samningar um upplýsingaskipti og fleira. (Forseti hringir.) Ég kem kannski nánar að leiðum til að takast á við þetta í seinni ræðu.