151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Það fer því miður ekki á milli mála að skattundanskot eru stórt vandamál hér á landi líkt og víðar. Leynd og ógagnsæi sem fylgt getur eignum á þeim svæðum þar sem skráning félaga er ófullkomin, nafnlausir reikningar leyfðir og engar kröfur eru til um skil ársreikninga, gerir það að verkum að íslenskt samfélag verður af milljörðum í skatttekjur á hverju ári. Þetta þýðir líka að margt er á huldu um umsvif, eigendur og viðskiptatengsl stórra aðila í íslensku efnahagslífi.

En það er þrátt fyrir allt mikill munur á milli þess að eiga félag erlendis sem er skráð og stendur skil á öllum sínum gjöldum, og að eiga aflandsfélag gagngert til að koma fjármagni í skjól undan eðlilegu eftirliti. Þess er skemmst að minnast sem fram kom í Panama-skjölunum. Miðað við höfðatölu eru Íslendingar óumdeildir heimsmeistarar í einmitt aflandsfélögum í skattaskjólum.

Á tíma síðustu ríkisstjórnar, þegar Viðreisn var í ríkisstjórn, lögðum við til að aðgerðir gegn skattundanskotum yrðu styrktar verulega, m.a. að komið yrði á virku eftirliti með óeðlilegri milliverðlagningu að norrænni fyrirmynd. Ég hvet ríkisstjórnina til að dusta rykið af þessum tillögum og gera raunverulega bragarbót í þeim efnum.

Svo er annað sem ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að gera hið snarasta. Það er að ljúka skýrslu sem ég hafði forgöngu um að leggja fram beiðni um og fjöldi þingmanna hér í salnum studdi með því að vera meðflytjendur og allir greiddu atkvæði með, svo því sé til haga haldið: Skýrslu um fjárfestingar stærstu útgerðanna og tengdra eignarhaldsfélaga þeirra hér á landi sem erlendis í íslensku atvinnulífi, ótengdu sjávarútveginum sjálfum.

Þetta eru tvær tillögur sem væru til þess fallnar að gera fjármagnsflutninga milli Íslands og annarra ríkja skýrari og gegnsærri.