151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessari umræðu sem er mjög þörf. Það er auðvitað ekki aðalmálið að Íslendingar megi ekki eiga fjármuni erlendis, en umræðan hefur stundum verið á þá leið. Verkefnið er að tryggja þarf að íslenska ríkið fái skattgreiðslur af þessum eignum eða tekjum, að því leyti sem heyrir undir lögsögu okkar og skatt á að greiða af til íslenska ríkisins.

Það hefur verið svo um fjöldamörg ár að menn hafa verið hvattir til að geyma sparnað sinn í erlendum sjóðum. Fjölmargir kjósa að geyma séreignarsparnað sinn í erlendum sjóðum. Hver kannast ekki við séreignarsjóði eins og Sun Life og Allianz og fleiri slíka? Íslenskur almenningur leggur sparnað sinn í slíka sjóði. Vita menn hvar þessir sjóðir ávaxta sitt fé og í hverju? Meðan maður greiðir skatt og gjöld á Íslandi á ekki að skipta neinu máli hvar peningarnir eru geymdir. Verkefnið er, herra forseti, að hafa innlenda lagaumgjörð skýra og afdráttarlausa að þessu leyti svo enginn velkist í vafa um rétt sinn og skyldur. Kerfið til að taka á því ef út af er brugðið á að vera öflugt og hafa nægan mannafla, tæki og fjármagn til að taka á skattundanskotum með kröftugum hætti. En svo hefur ekki verið um langa tíð. Þann tíma sem skattrannsóknir taka iðulega hérlendis þarf að stytta verulega. Þarna er ég að benda á helsta gallann í okkar kerfi, það er rannsóknatíminn. Hann er allt of langur. Fjármunir í þá veru að stytta rannsóknatímann skila sér margfalt í auknu réttlæti og þeim varnaðaráhrifum sem í því eru fólgin.