151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra ágæta yfirferð um stöðu mála, skýrslu sem hún fór hér yfir. Það er eitt mál sem ég hef veitt athygli reglulega undanfarnar vikur og mér hefur þótt eitt það undarlegasta sem við okkur blasir. Það er með hvaða hætti mál gengu í tengslum við bólusetningu foreldra langveikra barna. Það er mál sem verið hefur viðvarandi í umræðunni alveg síðan 25. febrúar. Það endaði með því að það tók rúma þrjá mánuði frá því að farið var að kalla mjög ákveðið eftir því að foreldrar langveikra barna yrðu bólusettir, vegna þess að það er mikið álag sem hvílir á þessum fjölskyldum, bæði út frá þeirri sérstöku varúð sem fjölskyldurnar þurfa að viðhafa og síðan það sem við á um sjónarmið um hringbólusetningu, eins og við þekkjum. Fluttar hafa verið fréttir af þessu núna, en þann 24. maí voru sagðar fréttir af því að heilsugæslan hefði loksins fengið lista yfir aðstandendur langveikra, eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins frá þeim degi, með leyfi forseta:

„Á miðvikudag“ — þ.e. 26. maí — „verða aðstandendur langveikra bólusettir með bóluefni Pfizer, aðallega langveikra barna sem ekki fá bólusetningu.“

Síðan heldur áfram hér, með leyfi forseta:

„Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að heilsugæslan hafi lengi beðið eftir lista frá embætti landlæknis yfir aðstandendur langveikra. „Hann barst núna í lok síðustu viku, svo við getum byrjað strax á þessum hópi …““

Þetta undirstrikar mikilvægi þess að þessi hópur fái strax bólusetningu þegar listinn liggur fyrir. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig stóð á því að það tók allan þennan tíma að höggva á þennan hnút, því að augljóslega var það hægt. (Forseti hringir.) Einhver persónuverndarsjónarmið eru þarna auðvitað, en úr því að hægt var að höggva á þennan hnút, hvað skýrir að það tók heila þrjá mánuði?