151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fara í svipaða átt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson. Ég veit að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir er miklu betur að sér í geðheilbrigðismálum en ég og það eru atriði sem mér þykja forvitnileg í þessum fjárauka, ekki síst vegna þess að fyrir um ári síðan var samþykkt mál frá Viðreisn um að fella heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu sér í lagi, undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Rætt var núna í haust þegar fjármálaáætlun var tekin fyrir, að það vantaði inn í þá áætlun að gert væri ráð fyrir því að þjónustan væri greidd niður og voru einhverjar fréttir af því að ekki hefði fengist vilyrði frá hæstv. fjármálaráðherra til að borga fyrir hana.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra peninga sem verið er að leggja í geðheilbrigðismál núna, hvort hún geti í fyrsta lagi upplýst mig aðeins um stöðu mála varðandi sálfræðiþjónustu í greiðsluþátttökukerfinu og hvort þetta þyki nóg. Mig grunar að svo sé ekki. Þessar tölur eru eiginlega sláandi lágar ef verið er að reyna að ná utan um þetta. Ég vil athuga hvort hv. þingmaður geti hjálpað mér aðeins að ná utan um þetta og svo held ég að við getum farið aðeins dýpra ofan í það.