151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að nota seinna andsvar mitt til að spyrja, af því að þetta eru allt saman tímabundnar fjárheimildir sem verið er að veita í frumvarpinu, hvort það þyki ekki svolítið undarlegt í ljósi þess að jú, vissulega er meira álag vegna Covid-faraldursins, en það er ekki eins og geðheilbrigðismálin hafi verið vel fjármögnuð fram til þessa og alveg útlit fyrir að þörf sé á að þessi aukafjárveiting verði varanleg. En ég verð að segja í ljósi svars hv. þingmanns, sem kom mér nokkuð á óvart, að mér finnst mjög alvarlegt ef Sjúkratryggingar Íslands eru með útboðsferli sínu að reyna að reka sálfræðinga í ákveðin rekstrarform. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði varðandi landsbyggðina, en ég er líka að hugsa um einyrkja í Reykjavík, einyrkja á höfuðborgarsvæðinu, að verið sé að búa þannig um hnútana að þeir neyðist til að sameinast um stærri stofu, mörg saman eða hvaðeina. Við þekkjum að verið hefur skortur á sálfræðiþjónustu á öðrum tungumálum en íslensku og þá sérstaklega fyrir innflytjendur. Það eru margir pólskumælandi innflytjendur, sem dæmi, á Íslandi sem hafa mjög takmarkaðan aðgang að sálfræðiþjónustu á pólsku. Að neyða fólk út í þetta fyrirkomulag, út í stærri rekstur, gæti orðið til þess að minnka (Forseti hringir.) sérhæfðara framboð á sálfræðiþjónustu, eða alla vega óttast ég það. Getur hv. þingmaður tekið undir þetta?