151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Áður en ég kem að málinu sem snertir velferðarnefnd og átröskunarteymið ætla ég að ræða aðeins áfram um þetta með nýsköpunina. Af því að ég veit að hv. þingmaður er næstum því og líklegast jafn áhugasamur um það sem er að gerast á vettvangi umhverfismála innan Evrópusambandsins, þá er t.d. mjög áhugavert að sjá Green Deal, stefnu þeirra, hversu mikla ofuráherslu þeir leggja á litlu fyrirtækin, að þau séu ekki skilin eftir þegar kemur að kostnaði sem þarf að greiða eða vegna þessara grænu áherslna eða breytinga þannig að þau verði ekki undir í samkeppninni við stærri fyrirtæki sem hafa meira bolmagn, heldur líka styrkinn til að þau geti tileinkað sér nýja viðskiptahætti og unnið að nýsköpun. Þannig að það er ólíku saman að jafna, því niður.

Varðandi þetta með fjárskortinn hjá átröskunarteyminu, hvort ekki hefði verið lag að bæta í þá starfsemi til að draga úr biðlistum, þá spyr hv. þingmaður hreinlega eins og hann gangi út frá því að það séu ær og kýr þessarar ríkisstjórnar að hafa stutta biðlista. Það er bara ekki þannig þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, hv. þingmaður. Við horfum ekki á það, því miður. Stutta svarið er bara: Þessi aðgerð, þessi skortur á fjármagni í þessa tilteknu heilbrigðisþjónustu sem leiðir af sér vaxandi biðlista er bara á pari við annað sem eftir stendur hjá þessari ríkisstjórn þegar kemur að heilbrigðismálum þjóðarinnar, það er bara þannig.