151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:33]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér alvarleg mál. Mansal er vissulega flókið og margþætt mannréttindabrot sem alþjóðasamfélagið hefur þó blessunarlega reynt að sporna við og stoppa frá árinu 2000 þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Palermó-samninginn, þann mikilvæga samning gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi, sem Ísland fullgilti þó ekki fyrr en tíu árum síðar.

Barátta gegn mansali hefur líka átt sér stað og verið mjög fyrirferðarmikil á vettvangi Evrópuráðsins og tekur í raun flugið þegar samningur Evrópuráðsins frá árinu 2000, um aðgerðir gegn mansali, var lagður fram til undirritunar 16. maí 2005 og var undirritaður af Íslands hálfu sama dag. En þó liðu heil sjö ár þar til samningurinn var fullgiltur. Þrátt fyrir að Ísland hafi undirgengist þessa mikilvægu alþjóðasamninga hefur ákvæði nr. 227 í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, verið afskaplega lítið breytt í framkvæmd. Og það er í raun algjörlega með ólíkindum að einungis þrjú mansalsmál hafi komið til kasta dómstóla, en í þeim öllum var ákært fyrir misnotkun í kynferðislegum tilgangi eða vændi.

Á Íslandi hafa dæmin hingað til sýnt að mansal hefur að mestu leyti birst í formi kynlífsmansals en líka vinnumansals, enda var farið að horfa meira til þeirra þátta mansals hér á landi frá og með árinu 2015 þegar farið var að horfa til vinnumansals í skýrslu greiningardeildar embættis ríkislögreglustjóra og birtingarmyndar vinnumansals sem birtist í mansali í byggingariðnaðinum, veitingarekstri og ferðaþjónustu, en líka hjá burðardýrum í fíkniefnamálum.

Síðan eru það hin órjúfanlegu bönd skipulagðrar glæpastarfsemi og vændis, sem er drifið áfram af mansali. Þessu til stuðnings má nefna nýjustu áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í maí 2019 þar sem fram kemur að skipulagt vændi hafi aukist verulega hér á landi, að hluti þess tengist mjög skipulögðu starfi erlendra brotahópa og að vísbendingar séu um að fólk, erlendir ríkisborgarar, sé flutt með skipulögðum hætti til landsins til að sæta mansali og misneytingu. Bak við þessar vísbendingar og skýrslur eru raunveruleg mannslíf, fólk af holdi og blóði, sem er undir hæli skipulagðrar glæpastarfsemi, glæpaklíkna sem möndla með líf og örlög fólks á hryllilegan hátt.

Herra forseti. Mig langar að nefna nokkra þætti sérstaklega: Í fyrsta lagi þá staðreynd að á hverju ári eru þúsundir barna fórnarlömb mansals. Þau eru beitt mansali í heimalandi sínu eða eru flutt á milli landa eða staða í þeim tilgangi að vera notuð eða beitt ofbeldi, hvort sem um er að ræða við ólöglegar ættleiðingar, til að nýta úr þeim líffæri eða við ólöglega vinnu og vinnumansal. Þau er gerð út til að betla og stela, en það sem er svartast og grimmast af öllu er þegar börn eru fórnarlömb mansals, notuð í kynferðislegum tilgangi og beitt hryllilegu kynferðisofbeldi. Þess vegna þarf staða barna, t.d. sem barna á flótta eða barna sem eru innflytjendur, alltaf að vera aukaatriði þegar slík mál koma upp. Aðalatriðið er að þau sem börn eru þolendur mansals.

Mig langar til að taka undir ábendingu Barnaheilla sem leggja áherslu í umsögn sinni á stofnun samhæfingarmiðstöðvar fyrir mansalsþolendur sem ráðgert var að yrði lokið árið 2020, sem fram kemur í áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annarskonar hagnýtingu. Sömuleiðis tek ég undir ábendingar Barnaheilla um gerð verklagslýsingar af hálfu barnaverndaryfirvalda við greiningu á börnum sem grunur leikur á að gætu verið þolendur mansals og gerð leiðbeininga og verklagsreglna fyrir fagfólk sem starfar með börnum þegar grunur leikur á að barn sé þolandi mansals. Þetta þarf að komast í gagnið strax, herra forseti.

Mig langar í öðru lagi að benda á að þrátt fyrir það frumvarp sem við ræðum í dag að sé mikilvægt skref í rétta átt hefði mátt nýta ferðina til að hnykkja á, vegna þess að ég vísaði til samspils mansals og vændis og skipulagðrar glæpastarfsemi, nauðsyn þess að vel sé hugað að fræðslu og þjálfun á öllum stigum löggæslu og í dómskerfinu þegar kemur að meintum mansalsbrotum. Það þarf að tryggja og hefði kannski verið ágætt að hnykkja betur á því í frumvarpinu sjálfu.

Mig langar líka að benda á eftirlit sérfræðingahóps GRETA, sem er sérfræðingahópur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, sem heimsótt hefur Ísland í tvígang, árið 2012 og í mars 2019. Sama ár var birt landsskýrsla um Ísland. Í þeirri skýrslu, þeirri seinni, var sérstaklega gagnrýnt að ekki skyldi sérstaklega kveðið á um nauðungarhjónaband, þvingað betl eða þvinguð afbrot í íslenskri löggjöf um mansal. Er sérstaklega tekið mið af þessum ábendingum GRETA-sérfræðingahópsins í frumvarpinu en hefði kannski mátt vera afdráttarlausara orðalag í því.

Mig langar líka til að nota þetta tækifæri hér til þess að tala um refsingu þeirra sem beita fólk mansali, eru gerendur þegar kemur að þeim afbrotum. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort styrkja þurfi þau ákvæði, þ.e. að gera breytingarnar enn skýrari þegar kemur að refsiverðum verknaði. Ég velti því upp einfaldlega hvort nóg sé að gert í þessu frumvarpi til laga þótt vissulega, og ég ítreka það, séu stigin mjög góð skref í þessu lagafrumvarpi. Ég velti því líka upp hvort nóg sé að gert þegar kemur að refsinæmi mansals og refsiþættinum í því.

Í tengslum við þetta langar mig til að nefna eitt. Í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar er talað um skýrleika refsiheimilda en nefndin telur ekki tilefni til að rýmka ákvæðið með frekari hætti en nú er gert en telur mikilvægt að fylgst sé með framkvæmd og þróun á sviði mansals svo ákvæðið þjóni tilgangi sínum. Ég velti því bara upp hvort það hefði mátt stíga fastar til jarðar þarna.

Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu en ég held að við getum varla annað, þegar við ræðum þetta mikilvæga frumvarp hér, en að ræða fjármögnun til lögreglunnar til þeirrar deildar og starfsemi lögreglunnar sem snýr að mansali og vændi og skipulagðri glæpastarfsemi. Við þingmenn höfum þrálátlega talað um að það vanti aukna fjármuni til lögreglunnar og ég held að það sé kominn tími til að gera vel og vandlega við þennan þátt lögreglunnar, þ.e. að auka fjármuni og styrkja mannafla til þess að takast á við þessi alvarlegu brot, vegna þess að við höfum séð aukningu þar. Og skýrslur, rannsóknir og tölur sýna okkur að orðið hefur fjölgun í þessum þætti glæpastarfsemi og að löggæslan hefur kannski ekki nægilega sterk tól og tæki til að fylgjast með því þegar vinnumansal eykst. Það hefur orðið umfangsmeira í þessum þætti glæpastarfsemi. Það er alveg rétt að taka það fram að í því ástandi sem ríkti hér fyrir heimsfaraldurinn, þegar ferðaþjónustan óx með þeim ósjálfbæra hætti sem hún gerði, þá voru þessir þættir sannarlega vaxtarverkirnir við þann ósjálfbæra vöxt og svartur blettur á vexti þeirrar ágætu greinar.

Í það heila held ég að það lagafrumvarp sem við fjöllum um í dag sé gott skref. Það hefði mátt nýta ferðina til að skerpa enn betur á ákveðnum hlutum. En ég vona að við sammælumst um að styðja þetta frumvarp.