151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

spá OECD um endurreisn efnahags Íslands.

[13:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í gær bárust fregnir af nýrri skýrslu eða spá OECD um að ekkert þróað ríki verði jafn lengi að endurheimta fyrri efnahagsstyrk eftir heimsfaraldurinn og Ísland. Auðvitað er það ákveðið áhyggjuefni. Samkvæmt spánni munu Bandaríkin, Írland, Japan og Noregur endurheimta sama efnahagsstyrk og fyrir faraldurinn á næstu mánuðum. Ísland nær hins vegar ekki þeim áfanga fyrr en eftir tvö ár samkvæmt OECD, þ.e. á þriðja ársfjórðungi ársins 2023.

Í sömu skýrslu eru íslensk stjórnvöld hvött til að beina stuðningsaðgerðum sínum beint að þeim sem mest þurfa á að halda, að fara ekki í almennar aðgerðir heldur sértækar. Á sama tíma fáum við fréttir af því að allir viðskiptabankar landsins hafi hækkað vexti á húsnæðislánum í vikunni. Það hefur ekki náðst að koma böndum á verðbólguna og gengisstöðugleikinn er enn og aftur undir. Við í Viðreisn sögðum það strax — og vel að merkja höfum við stutt aðgerðir ríkisstjórnarinnar — í mars 2020 að ríkisstjórnin þyrfti að stíga stór skref strax. Við ítrekuðum það strax í byrjun að stíga stærri skref. Ég held að þessi spá OECD taki að ákveðnu leyti undir þá nálgun okkar, að tryggja sértækar en ekki almennar aðgerðir, vegna þess að sú kreppa sem við höfum verið að upplifa er atvinnuleysiskreppa og það sjá allir. Við erum með atvinnuleysi í hæstu hæðum í sögulegu samhengi, það er blessunarlega að dragast saman núna, og þetta er kreppa sem bítur ólíka hópa samfélagsins misfast og ólík fyrirtæki líka. Ég veit að það hefur auðvitað verið leiðarljósið að tryggja heilbrigði og efnahag og að líðan þjóðar yrði sérstaklega varin á þessum tíma.

Mig langar að vita viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þessarar spár OECD, hvernig hún horfi á hana, hvort hún sé sammála henni um þá mynd sem er verið að draga fram og hvort hún ætli með einhverjum hætti að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið.