151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það líka svo í þessu máli að ef barnaverndarþjónusta eða -umdæmi lítur svo á að samþætting sé nauðsynleg í þágu hagsmuna barns þrátt fyrir að samþykki liggi ekki fyrir hjá foreldrum, þá geti viðkomandi stofnun úrskurðað um það, tekið ákvörðun um að það eigi að fara í slíkt eins og í öðrum málum. Þannig að það er ekki rétt að það sé ekki hægt að veita þjónustu þvert á kerfin ef foreldrar samþykkja það ekki. Það er hægt að veita það. Það er ekki víst að allir foreldrar sem veita samþykki átti sig á hversu víðtæk heimild það er og að (Forseti hringir.) það kerfi, sem þetta er smíðað utan um, (Forseti hringir.) gerir ráð fyrir ýtrustu varúð (Forseti hringir.) við meðferð þessara gagna. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvers vegna hlustar meiri hlutinn ekki á sérfræðinga (Forseti hringir.) í þessu máli eins og öðrum, eins og t.d. leghálsskimunarmálum, sem ráðleggja meiri hlutanum að fresta gildistöku?

(Forseti (BHar): Forseti verður að ítreka við hv. þingmenn að virða tímamörkin.)