151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[14:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið frá hv. framsögumanni. Ég er hér með umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar er á tólf stöðum komið inn á atriði er snúa að kostnaði. Á bls. 4 í umsögninni segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Að mati sambandsins er 27. gr. frumvarpsins mjög óljós og vafi á því hvort hún uppfylli þær kröfur sem leiða má af 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar um lögfestingu tekjustofna sveitarfélaga og skýrleika þeirra þar sem útfærsla hennar verður alfarið í reglugerð.“

Ég verð að lýsa yfir nokkurri furðu á því að í engu hafi verið tæpt á þessu. Í greinargerðinni kemur fram að ekki er áætlað að innleiðingarferlið klárist fyrr en 2024. Þarna eru þrjú ár, 2022, 2023 og 2024, algerlega ófjármögnuð og við erum nýbúin að samþykkja fjármálaáætlun fyrir þetta tímabil. Án þess að ég sé nokkuð að halla á markmið málsins (Forseti hringir.) sýnist mér einhver sýndarmennska í þessu. Það er alveg ótrúlegt, miðað við að þessar athugasemdir hafa komið fram í umsögnum, að í engu sé vikið að þessu.