151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek algerlega undir þessar áhyggjur vegna þess að þegar ég fékk frumvarpið í hendur, ég hafði ekki verið í þessari þingmannanefnd, þá hugsaði ég bara: Hvar er þessi hópur? Þegar ég las mér betur til og skildi nákvæmlega út á hvað þetta gekk að þá er þetta samþættur og snemmtækur stuðningur við öll börn. Ég tek heils hugar undir slíkt og ég þekki það á eigin skinni að snemmtæk íhlutun hjá heyrnarlausum börnum skiptir öllu máli. Þeir hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra eru svo algjörlega með það á hreinu og hafa boðið upp á þessa þjónustu og þetta getur skipt þroska þessara barna öllu.

Og eins og hv. þingmaður kom inn á með öll börn, hvort sem þau eru fötluð eða ekki, innflytjendur eða einhver sem þarf á nánari og sterkari stuðningi að halda til að byrja með, þá á þetta frumvarp að taka utan um þau, eins og segir hérna, samlegð verkefna sérhæfðra þjónustustofnana sem heyra undir félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra — þessir aðilar hafa talað saman og komið að þessu ferli. En aftur á móti tökum við undir það að fullt tilefni sé til að taka þetta til nánari skoðunar, ég undirstrika það. Ég er alveg sammála því að við þurfum að taka þetta til nánari endurskoðunar, sérstaklega í innleiðingarferlinu. Er þörf á að samræma þetta mikið betur en þarna er gert? Það verður þá bara vonandi skoðað.