151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003 (samþætting þjónustu, hlutverk og fleira), frá velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta og fékk einnig umsagnir sem teknar voru fyrir, bæði hjá gestum og við umfjöllun um málið.

Meginefni frumvarpsins er m.a. breyting á nafni stofnunarinnar, uppfærðar skilgreiningar, breytingar vegna aukins samstarfs og samþættingar þjónustu í þágu barna og breyting vegna fyrirkomulags svonefndrar frumgreiningar. Einnig er efni þess að hópar sem fá þjónustu frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni verði betur skilgreindir og skyldur stofnunarinnar gagnvart þeim verði skýrari sem og að hlutverki stofnunarinnar gagnvart þjónustuveitendum verði betur lýst. Loks er staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar skýrð gagnvart nýjum stofnunum félagsmálaráðuneytisins, einkum Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Fram kemur í 2. mgr. 4. gr. laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003, að stofnunin þjóni fyrst og fremst þeim sem eru á aldrinum 0–18 ára, sbr. 1. gr. Í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að tryggja að börn með alvarlegar þroskaraskanir, sem geta leitt til fötlunar, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði. Í umsögnum er bent á að umrædd stofnun sé eini aðilinn sem veiti ráðgjöf á landsvísu vegna þroskahömlunar og einhverfu og því sé enginn aðili ábyrgur fyrir ráðgjöf vegna fullorðins fólks með þessar skerðingar. Þá eigi eldri einstaklingar sem flust hafa til landsins oft erfitt með að fá viðeigandi greiningu en hún sé gjarnan grundvöllur fyrir ýmsum réttindum og þjónustu.

Nefndin tekur undir það að bjóða þurfi upp á úrræði fyrir eldri einstaklinga, bæði fyrir þá sem sökum aldurs falla ekki lengur undir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og eldri einstaklinga sem þurfa á greiningu að halda. Nefndin bendir á að frumvarp þetta komi til vegna annarra frumvarpa sem hafa það markmið að samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Því telur nefndin að svo stöddu að ekki sé unnt að rýmka aldursmörk og þar með auka þann fjölda sem stofnunin veitir þjónustu. Eins og bent er á í umsögn hafa vegna álags myndast biðlistar til að komast að hjá stofnuninni og hefur verið gripið til úrræða til að stytta þá. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að kanna hvaða þjónusta sé í boði fyrir eldri einstaklinga, bæði hvað taki við fyrir þá sem hafa fengið þjónustu frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins til 18 ára aldurs og möguleika þeirra sem eru eldri til að fá greiningu, jafnframt að ráðuneytið meti hvort hækka eigi aldurstakmark til að fá þjónustu stofnunarinnar.

Í umsögn segir að ekki komi fram hvort samráð hafi verið haft við börn um þetta tiltekna frumvarp. Nefndin bendir á nefndarálit í 354. máli er varðar samþættingu í þágu farsældar barna en það ásamt umræddu frumvarpi og fleirum á að mynda nýjan ramma um velferðarþjónustu barna. Þar leggur nefndin til að skipaður verði formlegur starfshópur til að styðja við innleiðingarverkefni frumvarpanna og að í þeim hópi skuli m.a. eiga sæti börn.

Fram kemur í 8. tölulið 4. gr. frumvarpsins að Greiningar- og ráðgjafarstöð sé heimilt að taka að sér mat á stuðningsþörf fatlaðs fólks í einstökum sveitarfélögum og þjónustusvæðum á grundvelli samnings við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga gegn greiðslu. Þá segir í 2. tölulið. 10. gr. frumvarpsins að ráðherra sé heimilt að setja gjaldskrá til að standa straum af kostnaði við námskeiðahald, útgáfu fræðsluefnis og faglega aðstoð og ráðgjöf til stjórnvalda og annarra þjónustuveitenda, sbr. 5. og 6. tölulið. 4. gr. Í umsögn um frumvarpið kom fram ábending um hvort eðlilegt gæti talist að stofnunin tæki gjald fyrir lögbundna þjónustu sína, sem innheimt væri beint af sveitarfélögum eða í gegnum Jöfnunarsjóð.

Nefndin bendir á að umrædd ákvæði frumvarpsins feli ekki í sér efnislega breytingu heldur komi í stað 4. mgr. og 3. mgr. 6. gr. gildandi laga. Telur nefndin ekki ástæðu til að fella niður þessa heimild til gjaldtöku.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að heiti stofnunarinnar verði Greiningar- og ráðgjafarstöð í stað Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í umsögnum um frumvarpið segir að í úttekt Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar á framkvæmd opinberrar menntastefnu frá 2017 sé eindregið hvatt til þess að hverfa frá áherslu á greiningu á börnum og leggja þess í stað áherslu á snemmtækan stuðning og þverfaglega aðkomu á fyrri stigum. Í því ljósi er lagt til að heiti stofnunarinnar verði Ráðgjafar- og greiningarstöð.

Nefndin fellst á þetta sjónarmið og telur heppilegra að heiti stofnunarinnar taki betur mið af áherslu á ráðgjafarhlutverk hennar.

Nefndin leggur einnig til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Nefndin leggur einnig til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Birgir Ármannsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Halldóra Mogensen, með fyrirvara, og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Ég hef þegar rakið hér breytingartillögur og hef þá lokið máli mínu um breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem verður Ráðgjafar- og greiningarstöð.