151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[18:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni framsöguna en það eru tiltekin atriði sem mig langar til að biðja hv. framsögumann að hnykkja á. Það er þannig að þegar ég les í gegnum þetta frumvarp og þær umsagnir sem liggja fyrir þá velti ég fyrir mér, sérstaklega þegar lesið er nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar, að það sé í raun erfitt að sjá hverju þessi stofnun bætir við af því sem ekki er unnið hjá Barnaverndarstofu nú þegar, enda byggist þetta að miklu leyti á að færa verkefni frá Barnaverndarstofu til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og leggja Barnaverndarstofu þar með niður. Getur hv. framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, aðeins farið í gegnum þetta? Hvaða viðbótaráhrif nást fram þarna? Og það má segja að mín upplifun af lestri nefndarálitsins sé að velferðarnefnd nálgist málið svolítið með hálfum huga, þetta tiltekna mál, það sé erfitt að greina hvaða kostnaður og umfang felst í þessu annað en að breyta nafni Barnaverndarstofu. En mest sláandi er í raun að lesa umsögn Persónuverndar þar sem komið er inn á áhyggjur af því hvaða rannsóknarheimildum er verið að úthluta með þessari nýju nálgun. En bara til að draga saman þessa spurningu mína til hv. framsögumanns: Hverju bætir þessi nýja stofnun við sem ekki er í dag unnið hjá Barnaverndarstofu? Hefði ekki verið nærtækara að breyta nafni Barnaverndarstofu í þetta nýja nafn og bæta þá þar við þeim verkefnum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að bætist við frá því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft?