151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[13:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sér er nú hvert leikritið. Ég er ekki viss um að kollegi Jón Viðar Jónsson myndi gefa þeim leikþætti margar stjörnur sem fram fór hér áðan hjá framsögumanni þessa máls. Málið var tekið út úr nefndinni í bullandi ágreiningi þrátt fyrir eindregna ósk m.a. nefndarformanns um að það mætti ræða það á fundi nefndarinnar morguninn eftir og klára málið þá. Það væri pláss. Þetta var á þriðjudaginn í síðustu viku.

Málið var í 2. umr. í gær. Það var engin sú tímapressa fyrir hendi sem ekki leyfði það að við fengjum einn viðbótarnefndarfund til að ræða málið. Það var í fyrsta skipti sem nefndarfólk fékk að ræða þetta mál, í fyrsta skipti. Þótt gestakomum hafi lokið í mars þá voru þetta svo ofboðslega umfangsmikil mál að þau voru inni á nefndasviði í þrjá mánuði. (Forseti hringir.) Við vitum það öll að það eru blekkingar, herra forseti, (Forseti hringir.) þegar látið er eins og það hafi verið næg umræða. Þetta var í fyrsta skipti sem nefndarfólk fékk að tala saman hér. (Forseti hringir.) Við erum að tala um mikilvægar ábendingar Persónuverndar (Forseti hringir.) og Barnaverndarstofu, sem segir hreinlega að það sé hætta á slysi (Forseti hringir.) ef við gerum ekki ákveðnar breytingar.