151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[13:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta stóra mál snýst mjög mikið um viðkvæmar persónuupplýsingar um börn og fjölskyldur þeirra, eins og margoft hefur komið fram hér í dag. Í þessari breytingartillögu erum við að setja skyldu á að skráning, miðlun og önnur vinnsla persónuupplýsinga sé eingöngu heimil í sameiginlegu upplýsingakerfi eða með sameiginlegum gagnagrunni sem Barna- og fjölskyldustofa hefur umsjón með. Ég lagði til slíka breytingu í öðru frumvarpi sem verður væntanlega tekið til afgreiðslu í þingsal í næstu viku varðandi barnaverndarlögin, og þar hefur meiri hlutinn verið tilbúinn til að samþykkja sambærilegar breytingu. En einhverra hluta vegna náðist það ekki inni í nefndinni varðandi þetta hérna mál. Ég held að það sé einfaldlega af því að það leyfðist ekki umræða í nefndinni um málið. Hér erum við að tala um þennan sameiginlegan gagnagrunn, að ekki sé verið að nota alls konar kalkipappír og blöð og alls konar tölvukerfi úti um allt kerfið, heldur sé þetta allt passað í vottuðum gagnagrunni af því að þetta eru svo viðkvæmar upplýsingar.