151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[13:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í þingflokki Samfylkingarinnar styðjum þetta mál en viljum þó taka undir umsögn fjölmargra sem sendu bæði í samráðsgátt og til nefndarinnar þá ábendingu að það væri bagalegt að ekki væri enn búið að víkka verksvið þessarar stofnunar fyrir fatlað fólk á aldrinum 18–24 ára. Þetta hefur verið í umræðunni innan stjórnkerfisins a.m.k. frá árinu 2014, en því bagalega ástandi er viðhaldið með þessu.

Ungt fatlað fólk sem er að taka skref í átt til sjálfstæðrar tilveru hefur ekki lögbundinn aðgang að þjónustu stofnunarinnar, einkum á sviði ráðgjafar. Þetta er ungt fatlað fólk. Svo er líka óhjákvæmilegt að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja þunga áherslu á að stjórnvöldum beri að tryggja stofnuninni þá fjármuni sem lögbundin verkefni hennar kalla á. Viðvarandi aðhaldskrafa á fjárveitingum (Forseti hringir.) til þjónustu hefur verulega neikvæð áhrif, fyrst og fremst á þá sem þurfa þessa þjónustu. Biðlistamenningu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verður að stöðva.