151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

fjöleignarhús.

748. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, rafrænir húsfundir og fjölbreytt húsnæði, frá velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá félagsmálaráðuneytinu, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Stefán Vilbergsson og Steinunni Valgeirsdóttur frá ÖBÍ. Nefndinni bárust umsagnir frá Húseigendafélaginu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að eigendum fjöleignarhúsa verði heimilað að halda rafræna húsfundi og nota rafræn skjöl og tölvupósta í samskiptum milli stjórnar og félagsmanna. Hins vegar er lagt til að húsfélögum í fjöleignarhúsum, þar sem bæði er að finna íbúðir og húsnæði sem nýtt er fyrir atvinnustarfsemi, verði heimilt að víkja frá ákvæðum laganna með setningu sérstakra húsfélagssamþykkta.

Í umsögnum komu fram ábendingar um ítrekuð vandræði sem hlotist hafa af því að bílastæðum hreyfihamlaðra í bílastæðakjöllurum nýrra fjölbýlishúsa hefur verið þinglýst sem séreign tiltekinna íbúða. Jafnframt bárust nefndinni tillögur um hvernig mætti leysa þennan vanda. Í þeim efnum hefur verið nefnt að bílastæði geti verið þinglýst séreign tiltekinna íbúða í fjöleignarhúsi, en kvöð sé á þeim um að hreyfihamlaður einstaklingur hafi forgang til þeirra.

Nefndin telur að ekki sé unnt að verða við þessari tillögu að svo stöddu. Slík breytingartillaga myndi fela í sér einhliða heimild eins íbúa fjöleignarhúss til að taka yfir eignarhluta annars íbúa. Um er að ræða flókið álitaefni á sviði eignarréttar. Taka þyrfti tillit til ýmissa þátta sem taka m.a. til þinglýsinga, samþykkis veðhafa og breytinga á eignarskiptayfirlýsingum. Nefndin telur þó mikilvægt að unnið sé að lausn og af þeim sökum beinir hún því til ráðuneytisins að taka þetta álitaefni til sérstakrar skoðunar. Þá stendur yfir sú vinna að endurskoða byggingarreglugerð og er rétt að þetta sé kannað á þeim vettvangi. Loks bendir nefndin á að ráðuneytið taki til skoðunar umsagnir sem bárust við meðferð málsins í nefndinni.

Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að þessu virtu leggur hún til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem ég hef áður kynnt og eru tæknilegs eðlis.

Undir þetta nefndarálit skrifa Helga Vala Helgadóttir formaður, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Halldóra Mogensen, með fyrirvara, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason, hv. þingmenn í velferðarnefnd.