151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020. Þetta er stjórnarfrumvarp lagt fram af félags- og barnamálaráðherra. Þetta er í eðli sínu, herra forseti, gott mál en á er því ágalli sem felur í sér mismunun sem ég mun koma að, sem háttvirtur síðasti ræðumaður vék einnig að. Þann ágalla verður að lagfæra og því nauðsynlegt að þetta mál fari til nefndar á milli umræðna.

Herra forseti. Rakið er í greinargerð með frumvarpinu að áfram ríki nokkur óvissa á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveiru sem veldur hinum svonefnda Covid-19 sjúkdómi. Í ljósi þess eru lagðar til í þessu frumvarpi breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætlað er að bregðast við þeim áhrifum sem heimsfaraldur veirunnar hefur haft á vinnumarkaðinn. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs í því skyni að bregðast við þeim áhrifum sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft á starfsemi íþróttafélaga.

Herra forseti. Ég vil gera hér að sérstöku umræðuefni og vekja athygli á umsögn KFUM og KFUK um þetta mál. Sú umsögn er rituð undir yfirskriftinni „Einstakt tækifæri til að laga alvarlegan galla og mismunun í lögum nr. 155/2020“. Það eru lögin um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs. Í upphafi umsagnarinnar segir að stjórnvöld á Íslandi hafi ríkan skilning á hve mikilvægt íþrótta- og æskulýðsstarf sé fyrir uppvöxt og þroska barna og unglinga. Þau hafi sýnt það í verki með öflugum fjárstuðningi við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf sem hafi orðið fyrir brotsjó vegna veirunnar. Sannarlega megi þakka fyrir það sem vel er gert og hrósa þeim sem leitt hafi þá vinnu. Rakið er að stærsti liður í aðgerðapakka stjórnvalda séu lög um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldursins, þ.e. fyrrgreind lög nr. 155/2020 sem samþykkt voru síðastliðinn vetur. Hér liggur fyrir frumvarp um að breyta þeim lögum svo að gildistími þeirra lengist um sex mánuði.

Umsögnin heldur áfram undir millifyrirsögninni „Málaflokkurinn íþrótta- og æskulýðsstarf“. Þar segir að mikilvægt sé að á Íslandi sé í boði fjölbreytt og vandað íþrótta- og æskulýðsstarf. Íþróttirnar skipi þar vissulega stóran sess en við verðum að muna að ekki finni öll börn sig í íþróttum. Svo segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Fjölmörg þeirra eiga meiri samleið með öðru skipulögðu æskulýðsstarfi. Þar sem íþróttahreyfingin er stór og áberandi aðili þarf oft að árétta að undir málaflokkinn heyrir einnig skipulagt æskulýðsstarf sem ekki er starfrækt undir formerkjum íþrótta. Í þeim hópi eru KFUM og KFUK, Bandalag íslenskra skáta og fleiri aðilar sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og gera samning þess eðlis við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þessir aðilar eru eðli málsins samkvæmt ekki aðilar að Íþrótta- og Ólympíusambandinu.“

Næst í umsögninni er millifyrirsögnin „Stór galli í lögunum“ og svo segir, með leyfi forseta:

„Sá galli kom strax fram í lögunum að þau ná eingöngu til íþróttafélaga innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Lína var dregin þvert yfir málaflokkinn íþrótta- og æskulýðsstarf. Björgunarhring var kastað til þeirra félaga sem skilgreina sig sem íþróttafélög, meðan hin hafa troðið marvaða. Í því felst óþolandi mismunun sem við bentum á við setningu laganna í desember, en ekki gafst svigrúm til að laga.

Það er mjög slæmt að stjórnvöld hafi sent út þau skilaboð að æskulýðsstarfið í íþróttahúsinu sé mikilvægara en æskulýðsstarfið í skátaheimilinu. Öllum má vera ljóst hve galið það er að t.d. karatedeild Breiðabliks geti sótt stuðning í nafni laganna, en skátafélagið Kópar sé skilið eftir fyrir utan. Báðir aðilar standa fyrir öflugu og faglegu æskulýðsstarfi í Kópavogsdal og báðir aðilar tilheyra heildarsamtökum með þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið.“

Herra forseti. Í umsögninni er nú farið að fjalla um lausnir undir millifyrirsögninni „Nú gefst tækifæri til að leiðrétta“ og þar segir, með leyfi forseta:

„Núna þegar verið er að breyta fyrrgreindum lögum gefst kjörið tækifæri til að laga þennan galla. Samhliða því sem líftími laganna verður lengdur má umorða aðra málsgrein í 3. gr. laganna svo hún hljóði:

1. Íþróttafélag: Lögaðili innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og annarra samtaka sem hafa í nafni íþrótta- og æskulýðsstarfs þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum lögaðilans.“

Svo segir áfram að þar sem um tímabundna löggjöf sé að ræða telji sá sem ritar undir umsögn KFUM og KFUK, þ.e. Tómas Torfason, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi, að ekki þurfi að gera frekari breytingar til að plástra sárið og tryggja að lögin nái yfir málaflokkinn íþrótta- og æskulýðsstarf, óháð því hvort starfið fari fram undir formerkjum íþrótta eða ekki. Með þessari einföldu breytingu, hún er sannarlega einföld, herra forseti, væri opnað fyrir að lögaðilar innan fyrrgreindra hreyfinga geti með jöfnum hætti sótt stuðning til Vinnumálastofnunar.

Í umsögn KFUM og KFUK segir að rétt sé að undirstrika að fjöldi þeirra samtaka sem hafa formlegan samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið í nafni íþrótta- og æskulýðsstarfs sé takmarkaður og vel skilgreindur. Með breytingunni sé því ekki verið að opna neinar óskilgreindar flóðgáttir. Það er auðvitað mjög mikilvægt atriði, herra forseti, að fjöldi þeirra samtaka sem hafa formlegan samning við ráðuneytið í nafni íþrótta- og æskulýðsstarfs er takmarkaður og vel skilgreindur.

Að lokum segir í umsögn KFUM og KFUK að velferðarnefnd Alþingis hafi núna einstakt tækifæri til að leiðrétta þau mistök sem gerð hafi verið á liðnum vetri við setningu laga nr. 155/2020, mistök sem hafi sent mjög slæm skilaboð út í samfélagið, mistök sem séu engum til sóma. Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Á sama tíma og við fögnum því að lögum nr. 155/2020 verði breytt svo gildistími þeirra lengist um sex mánuði, hvetjum við Alþingi til þess að breyta 3. gr. laganna, svo viðurkenndar æskulýðshreyfingar, sem ekki starfa undir formerkjum íþrótta, geti sótt eftir þeim stuðningi“ — af hálfu Vinnumálastofnunar — „sem lögin heimila, til jafns við íþróttafélögin.“

Það er niðurstaða umsagnarinnar að Alþingi er hvatt til að breyta 3. gr. laganna svo viðurkenndar æskulýðshreyfingar, sem starfa ekki undir formerkjum íþrótta, geti leitað til Vinnumálastofnunar eftir þeim stuðningi sem lögin heimila, til jafns við íþróttafélög.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt og brýnt að málið fari aftur á milli umræðna til hv. nefndar svo að sú mismunun sem hér hefur verið svo ítarlega rakin í þeirri umsögn sem ég hef gert að umræðuefni, frá KFUM og KFUK, verði leiðrétt.

Herra forseti. Undan því að leiðrétta þessi mistök, að mismuna félögum á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs, verður ekki vikist.