151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin ætlar sér að halda áfram eftir kosningar. Er það góður kostur? Nei segi ég. Lítum á nokkur atriði.

Verðstöðugleiki hefur ekki náðst. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% en verðbólgan mælist nú 4,4%. Hún hefur verið yfir markmiði nánast allt kjörtímabilið. Verðbólga hefur líka hækkað hlutfallslega langmest á Íslandi meðal allra OECD-landa.

Met hefur verið slegið í atvinnuleysi og á sama tíma hefur atvinnuþátttaka aldrei verið minni. Aftur sker Ísland sig úr, en hér hefur atvinnuleysi aukist hlutfallslega mest. Vextir eru á uppleið. Íslendingar búa að jafnaði við mun hærra vaxtastig en önnur Evrópuríki. Við borgum alltaf Íslandsálagið.

Vaxtahækkunarferli er hafið á Íslandi. Þar tökum við vafasama forystu með búsifjum fyrir heimili og fyrirtæki. Þrálát verðbólga og hækkandi vextir blasa við ungu fólki sem sótt hefur inn á fasteignamarkaðinn. Markaðurinn hefur ekki ráðið við eftirspurnina og fasteignaverð hefur rokið upp. Margir hafa spennt bogann hátt og hætt er við að ýmsir lendi í miklum greiðsluerfiðleikum á næstu misserum.

Ríkissjóður var kominn í óefni fyrir Covid. Við í Viðreisn vöruðum margsinns við. Ríkisstjórnin lét það sem vind um eyru þjóta, en segir að á næstu árum þurfi afkomubætandi aðgerðir upp á tugi milljarða. Þetta eru skrautyrði fyrir niðurskurð og skattahækkanir. Myndin sem við blasir er döpur. Rekstur ríkisins hefur þanist út, skuldir ríkissjóðs og erlend lántaka hefur aukist. Ekki þarf ríkt hugmyndaflug til þess að átta sig á hver mun borga brúsann; það eruð þið, ágætu landsmenn, ef ekki verður gripið í taumana strax í haust.

Herra forseti. Við í Viðreisn ætlum að snúa blaðinu við. Ábyrg ráðstöfun opinbers fjár á að vera í brennidepli. Við eigum að vera óhrædd við að skoða verkefni ríkisins ofan í kjölinn, hvort sem er í opinberum rekstri eða þeim sem sinnt er af einkaaðilum. Marka á skýra stefnu til að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga og rekstrar. Þetta verður eitt af stærri og vandasamari viðfangsefnum komandi ára.

Nýsköpun er okkur nauðsynleg. Við þörfnumst öflugra fyrirtækja, drifnum af hugviti sem skapa verðmæti til útflutnings. Þeim verður að fjölga og hraða uppbyggingu þeirra þannig að þau vaxi hér og dafni. Þá verður til fjölbreytt atvinnulíf sem skapar hagsæld og veitir viðnám gegn áföllum í efnahagslífinu.

Skýrar aðgerðir þarf í umhverfis- og loftslagsmálum. Það gerum við með atbeina atvinnulífsins. Með metnaðarfullri fjárfestingu í grænni tækni, grænum hvötum og nýsköpun. Þannig nýtum við krafta frjáls markaðshagkerfis til að draga verulega úr losun. Gæta þarf þess að hagrænir og grænir hvatar leiði ekki til skattahækkana heldur tilfærslu á tekjustofnum ríkisins.

Nýsköpun er viðvarandi viðfangsefni en ekki skammtímaúrræði gegn kreppu. Móta verður stuðningumhverfi til langs tíma. Stöðugt gengi og samkeppnishæft vaxtaumhverfi er algjört grundvallaratriði. Íslenska krónan ræður ekki við það verkefni. Þess vegna þurfum við evru.

Herra forseti. Hugsjónir um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni Evrópusambandsins. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með fullvalda og sjálfstæðum ríkjum sem ráðist hafa í það erfiða verkefni að vinna þétt saman um umhverfismál, heilbrigðismál, jafnréttismál og efnahagsmál, svo eitthvað sé nefnt. Og það er þess vegna sem Ísland á að ganga í Evrópusambandið. — Góðir landsmenn. Gleðilegt sumar og farsælt haust.