151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Flokkur fólksins hefur aldrei nokkurn tíma breytt um takt frá degi eitt, þegar við urðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að tala hér úr æðsta ræðustóli landsins og vera málsvarar þeirra sem hafa verið þaggaðir og faldir í samfélaginu. Við erum ekki með nein kosningaloforð, við höfum engu breytt, við viljum útrýma fátækt. Við viljum meiri jöfnuð í samfélaginu. Við viljum sanngirni. Réttlátt samfélag ætti að vera okkur öllum hjartans mál.

Ef þú, kæri landsmaður, kæri áhorfandi, vilt byggja brú á milli þeirra ríku og fátæku, ef þú vilt þjappa saman þessum tveimur þjóðum og eiga eina þjóð í landinu, ef þú vilt berjast gegn fátækt, óréttlæti, misskiptingu og lögleysu, þá heldur þú áfram að taka utan um Flokk fólksins og gerir hann enn stærri og sterkari þannig að við séum ekki bara að mæla fyrir málunum okkar sem er sópað út af borðinu heldur fáum að fylgja þeim eftir og gera þau að veruleika. Það er í þínum höndum, kæri landsmaður, að hjálpa okkur að útrýma fátækt því að við erum eingöngu hér fyrir ykkur og eingöngu hér til þess.