151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[14:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sem áhugamaður um skattalega samkeppni milli landa þá verð ég að segja að margt gera Írar vel í þeim efnum. Þeir bjóða þannig fyrirtækjaskatta að þeir hafa laðað til sín erlend stórfyrirtæki og fengið fyrir skammir, m.a. frá samstarfsþjóðum sínum innan Evrópusambandsins, fyrir að bjóða miklu hagstæðara skattumhverfi almennt. Ég held að við þurfum að ræða þessa hluti í heild og við getum auðvitað velt fyrir okkur hvort við getum leitað fyrirmynda, m.a. á Írlandi. Ég er ekki tilbúinn að taka undir með hv. þingmanni hvað þetta afmarkaða atriði varðar núna, en á hinn bóginn er skattaleg samkeppni milli landa staðreynd. Það er viðleitni af hálfu ýmissa alþjóðasamtaka til að sporna við henni, eins og menn þekkja bara frá nýlegum dæmum. En staðreyndin er hins vegar sú, af því að hv. þingmaður nefnir Írland, að Írar hafa verið mjög grimmir í skattalegri samkeppni á mjög mörgum sviðum sem varðar skattlagningu atvinnurekstrar.