151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fjöleignarhús.

748. mál
[14:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, ég er fylgjandi þessu máli, en þó með þeim sama fyrirvara og hér hefur verið greint frá af öðrum nefndarmönnum úr minni hluta. Mig langar að koma hér upp af þessu tilefni og segja að ég held að það væri gæfuríkt fyrir Alþingi Íslendinga ef þingmál fengju að lifa milli þinga. Hér hefur komið fram varðandi breytingartillögu eins og hér um ræðir, þar sem stæði sérmerkt fötluðum fengi að fylgja þeim sem þarf á slíku að halda frekar en íbúð hjá ófötluðum einstaklingi, að slíkt myndi taka svo langan tíma af því að þetta væri svo flókið eignarréttarlega séð. Það væri svo gott ef þingið gæti gefið sér þann tíma sem þarf af því að við erum jú löggjafinn og það er svo aumt að þurfa að henda svona hlutum til framkvæmdarvaldsins þegar við erum sá aðili í stjórnskipan landsins sem á að búa til lögin, fínpússa þau og gera þau eins fullkomin eins og okkur frekast er unnt.