151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[14:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þetta þriðja mál sem snertir breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar vegna greiðslna til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Þetta mál kom aðeins seinna fram og kom kannski frekar seint í ferlinu. Þetta er í heildina að mínu mati gott mál. Það er mikilvægt að hafa hér tekið tillit til íþróttafélaga. Það er líka umhugsunarefni að það er félagsmálaráðherra sem hefur frumkvæði að þessu en ekki íþróttamálaráðherra. En það er önnur saga.

Ég tel engu að síður mjög brýnt og mikilvægt að þetta mál hafi komið fram til þess að draga fram að starfsemi og fyrirkomulag íþróttafélaga er með svolítið öðrum hætti en gengur og gerist, ekki síst vegna þess að umgjörðin öll byggist mjög mikið á sjálfboðaliðastarfi, sem verður reyndar alltaf erfiðara og erfiðara. Ekki síður er það mikilvægt að fyrir þær greiðslur sem íþróttafélögin inna af hendi þurfa þau oftar en ekki stuðning og sá stuðningur er viðurkenndur í þessu frumvarpi. Ég hefði auðvitað viljað fá yfirsýn og yfirlit yfir það hvernig haldið hefur verið á málum íþróttahreyfingarinnar frá upphafi. Þetta er gott dæmi um hvernig samtalið hér inni skilar sér í því að málin batna, að ráðherrar vakna t.d., það er nú eitt, í mikilvægum málum. Ég held að stóra myndin sé sú að við höfum komist vel frá stærstu aðgerðunum í tengslum við Covid.

Virðulegur forseti. Það skiptir máli hvernig þingið virkar. Ég hef áður sagt að mér finnst stjórnarandstaðan hafa staðið vaktina með því að vekja ráðherra og benda á góð mál, en á viðkvæmum tímum, óvissutímum, í þeim ófyrirsjáanleika sem er búinn að vera í meira en hátt í eitt og hálft ár, þá höfum við ekki farið í hefðbundna stjórnarandstöðu. Það má kannski gagnrýna en ég tel engu að síður að það hafi verið til farsældar og að við höfum fyrir vikið komist fyrr í gegnum þetta, að það hafi verið meiri yfirvegun, meiri ró og meiri samstaða um langflest málin, samstaða í yfirgnæfandi tilvikum varðandi sóttvarnaaðgerðir. En vissulega hefur okkur greint á varðandi efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Við tókum það strax fram, m.a. með tilliti til íþróttahreyfingarinnar, námsmanna og náttúrlega fyrirtækjanna, lítilla sem stórra, að stíga þyrfti stór skref strax, ekki síst varðandi það hvernig við ætluðum að taka utan um launafólk sem misst hefur vinnu, vonandi bara tímabundið.

Við erum núna að fara af stað og ég tel það afar jákvætt að við sjáum ferðaþjónustuna fara af stað. Það þýðir að við verðum vonandi fljótari að koma okkur upp í enn meiri verðmætasköpun til að auka hagvöxt til að standa undir velferðarkerfinu, standa undir því sem við viljum að fúnkeri hér á landi, þar með talið starfsemi íþróttafélaga, tómstundastarfsemi o.s.frv. Í þessu máli hafa engu að síður komið fram athugasemdir frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, frá stúdentahreyfingunni og fleirum. Þegar kemur að þessu umhverfi, rétti til atvinnuleysisbóta eða ekki, segir stúdentaráð m.a., með leyfi forseta:

„Réttur til atvinnuleysisbóta er það öryggi sem gripið yrði til í neyð af þeim stúdentum sem ekki geta leitað annað að fjárhagslegu öryggi. Námslánakerfið má vart teljast til félagslegs jöfnunartóls enda tryggja úrræðin þar ekki jafnræði eða viðunandi framfærslu, samanber tímabundnu hækkunina á grunnframfærslunni sem nær einungis til þeirra stúdenta sem þéna minna en frítekjumarkið. Námslánakerfið og atvinnuleysistryggingakerfið eru tvö aðskilin kerfi sem ekki hefur tekist að láta vinna saman …“

Þetta er eitt af þessum dæmum, það er eins og sumum kerfum sé fyrirmunað að vinna og tala saman og það endar kannski með því að þunginn lendir á stúdentum út frá einhverjum aðstæðum sem stúdentar bera á endanum ekki ábyrgð á. Stúdentar bentu réttilega á að við heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem er núna í undirbúningi, hafi þurft að hafa það markmið að gera áríðandi breytingar með hliðsjón af fjárhagsstöðu stúdenta, sem er oft og tíðum slæm, og ganga úr skugga um að stúdentar eigi rétt á vernd gegn atvinnuóöryggi og atvinnuleysi. Við vitum að til að mynda að stúdentar falla úr námi vegna þröngs fjárhags, þeir hafa misst vinnu og geta ekki haldið sér uppi í námi og það er mikið umhugsunarefni að svo sé. Þetta eru ábendingar sem ég tel hafa verið mikilvægar inn í málið og vil geta þess að þingmenn Miðflokksins bentu líka réttilega á það hér á undan.

Það er gott að Ungmennafélag Íslands og KSÍ og íþróttasambandið hafa öll tekið undir það fyrirkomulag sem hér er verið að boða og það er mikilsvert. Það er mikilvægt að við reynum að stuðla að samstöðu en líka skilningi á því að þessi geiri í samfélagi okkar þurfi á stuðningi að halda. Við sem elskum og unnum íþróttunum spurðum okkur oft og tíðum varðandi ýmsar aðgerðir sem tengdust lokunum í íþróttum, en þegar upp er staðið held ég að okkur hafi tekist ágætlega til. Við sjáum íþróttirnar fara núna á fleygiferð hér í samfélaginu. Það er reyndar erfitt að rifja upp leik FH og ÍBV um daginn, en það var engu að síður eitthvað svo dásamlegt. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er þingmaður kjördæmisins og þetta var leikur sem hefði átt að fara betur. En um leið og ég óska Eyjamönnum til hamingju með sigurinn segi ég að það var engu að síður yndislegt að komast í Krikann aftur og finna að þetta er allt saman að fara í gang smám saman. Um leið skynjar maður álagið á íþróttafélögunum, þeim sem halda utan um íþróttafélögin. Þegar allt hefur legið niðri þarf engu að síður að halda uppi starfsemi, borga fólki laun, hvort sem það eru þjálfarar eða starfsfólk eða aðrir sem koma að því að halda þessu kerfi gangandi þannig að við sem erum að fara í Krikann eða annað getum mætt þangað þegar opnað verður.

Við í Viðreisn styðjum þetta mál og fögnum því að það sé komið fram þótt það hefði mátt klárast fyrr. Þetta er dæmi um að mál verða betri í meðförum þingsins, verða betra með því að við tölum saman og bendum á þætti sem betur mega fara. Það er allt liður í því að efla samstöðu og skilning á þeim tímum sem við höfum verið að ganga í gegnum og ekki síður að íþróttafélögin geti haldið starfsemi sinni gangandi með minni áhyggjur í farteskinu. Það er fagnaðarefni að verið sé að framlengja það tímabil sem íþróttafélög geta sótt um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga. Mér finnst það mikilvægt.

Að öðru leyti vona ég að við náum að fara í gegnum þau ýmsu sjónarmið sem koma fram við þetta mál og eðlilega er rétt og mikilvægt að ræða hér í þingsal. En það er afar þýðingarmikið að við höfum íþróttir og íþróttalíf gangandi, bæði núna þegar við erum að fara af stað en líka að það haldi áfram að ná enn frekari fótfestu þannig að við getum náð litlum og stórum sigrum inn í framtíðina, sama hvaða íþróttagreinar við erum að tala um.