151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að benda einmitt á að þetta mál hefur batnað í meðförum þingsins og ekki síst fyrir tilstuðlan stjórnarandstöðunnar sem benti strax á, ég held að hv. þingmaður hafi gert það líka, að það vantaði verktakagreiðslur inn í málið. Það segir mér samt svolítið að menntamálaráðherra hafi kannski ekki alveg verið með puttana í málinu sjálf. Það getur verið, til þess að allir njóti sannmælis, að þetta sé tæknileg leið, þetta sé einfaldari leið fyrir kerfi íþróttafélaganna til að ná í þessar greiðslur, þ.e. að farið verði í gegnum Vinnumálastofnun. Það getur vel verið að svo sé. En mér fannst hins vegar skorta á frumkvæði. Mér fannst skorta á samtalið og yfirsýn um það hvernig íþróttunum myndi fram vinda þegar við vorum á bólakafi í faraldrinum, að það væri af hálfu stjórnvalda, af hálfu ríkisstjórnarinnar, tekin afstaða með íþróttunum. Mér fannst þær um tíma vera svolítil afgangsstærð. Við bönkuðum og íþróttafélögin bönkuðu upp á og við sögðum: Bíddu, hvað með íþróttirnar? Það frumkvæði vantaði fannst mér af hálfu menntamálaráðherra. Það hefur sem betur fer lagast. Það er að lagast núna á lokametrum veirufaraldursins en hlutir gerast ekki af sjálfu sér og í baráttu ráðuneyta um fjármagn, um athygli, þarf hver ráðherra að hugsa um sinn málaflokk. Fjármálaráðherra, sem alltaf er hægt að skamma út af alls konar hlutum, ber ekki ábyrgð á því hvernig menntamálaráðherra forgangsraðar sínum málum og ég hefði gjarnan viljað sjá íþróttir, og líka menninguna, vera settar framar í tímaröðina. (Forseti hringir.) Eins og ég segi, þessir þættir komu ekki fram fyrr en nokkuð var liðið (Forseti hringir.) á faraldurinn þó að hlutir hafa verið gerðir ágætlega eftir að þeir voru settir á dagskrá.