151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég veit ekki hvort það er hreinlega til bóta að fjölga þarna matskenndum atriðum. Það kann að vera, og væntanlega er það í einhverjum tilfellum þannig, að aðili sem er með ákveðna starfsreynslu og menntun treysti sér af einhverjum orsökum ekki til þess að taka starfi sem hann er hvorki menntaður til né hefur starfsreynslu í. Kannski er það nú bara vegna þess hvernig maður er alinn upp við að hugsa; að þó svo að maður sé menntaður í einhverju öðru þá skipti kannski meira máli að hafa vinnu þótt hún sé ekki akkúrat sú rétta, þ.e. ef það er ómögulegt að fá hina svokölluðu réttu vinnu. Ég met það reyndar ekki þannig í þessu tilfelli að þeir sem eru með ákveðna starfsreynslu og menntun muni hafna öllum störfum. Ég hugsa að það sé ekki þannig, að sjálfsögðu ekki. En ég veit ekki hvort þetta sé endilega til bóta. Mig langar bara að hugsa upphátt og kannski á maður ekki einu sinni að vera að velta því fyrir sér, en ég velti fyrir mér hvort einhver einstaklingur með ákveðna menntun á tiltölulega þröngu sviði eða eitthvað slíkt, eða starfsreynslu á frekar þröngu sviði, geti verið á atvinnuleysisskrá sýknt og heilagt af því að það komi ekki inn starf sem er nákvæmlega þannig skrifað. En vissulega bendir hv. þingmaður á að þetta er hluti af ákveðnu matsferli, þetta eru matskenndir hlutir sem taka þarf tillit til. Ég held að ég þurfi aðeins að hugsa þetta betur.