151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Já, það er rétt munað, mér var þakkað fyrir að hafa bent á þetta varðandi verktakagreiðslurnar þrátt fyrir að meiri hlutinn hefði ekki treyst sér til að styðja þá tillögu vegna þess að hún kom frá stjórnarandstöðuþingmanni og yrði að fá að eiga barnið sjálfur. Meiri hlutinn var tilbúinn til að gera breytingar á þessu í nefndinni milli 2. og 3. umr.

Varðandi námsmennina hafa stjórnarliðar aldrei verið tilbúnir til þess. Við í Samfylkingunni höfum lagt nokkrum sinnum fram þá tillögu að veita tímabundna undanþágu í lögum um atvinnuleysistryggingar þannig að námsmenn megi, bara núna í sumar, bara í sumarhléi, eins og þeir hafa greitt til, fá notið stuðnings úr Atvinnuleysistryggingasjóði, en því miður hafa stjórnarliðar ekki verið tilbúnir til þess. Með orðum félags- og barnamálaráðherra: Við ætlum ekki að fara að borga fólki fyrir að gera ekki neitt.