151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég myndi kalla þetta áróðursherferð að vissu leyti, það eru dregin upp ákveðin dæmi sem líta illa út utan frá. Einhver sem er að leita sér að atvinnu segist vilja klára sumarfrí sitt áður en hann fer af atvinnuleysisbótum. Það lítur illa út utan frá en hann er einmitt mögulega með mjög góðar útskýringar og ástæður fyrir því eins og hv. þingmaður dró upp.

Það er mikilvægt fyrir okkur hér á þingi og gagnvart almenningi að við fáum allar upplýsingar málsins. Það hefur verið pínulítið erfitt að fá einhvers konar yfirlit um það hversu margir falla í raun út af atvinnuleysistryggingum yfir á t.d. kerfi sveitarfélaganna o.s.frv. Hvernig er heildstæða myndin sem við erum að eltast við að laga þegar alltaf er verið að draga upp svona einstök slæm dæmi sem eru ekkert lýsandi fyrir vandamálið í heild sinni?