151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo gamaldags að ég verð eiginlega alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Ég hef aldrei verið neydd til að vinna af því að mér finnst yfirleitt bara gaman að vinna og jafnvel þó að það sé mjög erfitt og mjög lýjandi þá finnst mér það skemmtilegt. Ég hef verið mjög heppin með það.

Ég held þrátt fyrir allt að þá sé það þannig hjá meginþorra fólks að það vilji vera í virkni, að það vilji hafa eitthvað fyrir stafni. Það er kannski ekki draumastarfið en það er þetta að mæta einhvers staðar eða vera í þessari virkni, hvort sem það er heima við skrifborðið eða inni á verkstæði eða hvar sem er, á vinnustofu, að finna þennan tilgang einhvern veginn. Ég er fullviss um að það er meiri hlutinn sem vill vera þar.