151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þræti ekkert fyrir þetta. Ég er sammála. Ég verð sjálfur alveg óttalega eirðarlaus ef ég hef ekki nógu mikið fyrir stafni og er kannski ákveðinn vinnualki og ég held að flestir vilji einmitt virkni. En virkni er allt annað en það að þurfa að neyðast til að taka starfi sem hentar kannski ekki menntun eða hæfileikum eða hreinlega búsetu. Mér finnst að þegar við erum að tala um hlutverk atvinnuleysistryggingakerfisins og vinnu í nútímanum, þá þurfum við svolítið að horfa til þess raunveruleika að við þurfum ekki alla þessa uppskálduðu virkni, sérstaklega ekki þegar hún krefst þess að fólk sé að eyða heilu og hálfu dögunum í að keyra á milli staða til þess eins að geta unnið starf sem því kannski mislíkar þegar það gæti verið í fullkomlega gagnlegri virkni heima hjá sér í einhverju á sínum eigin forsendum.

Þannig að spurning mín til hv. þingmanns er: (Forseti hringir.) Er ekki atvinnuleysistryggingakerfið svolítið byggt á gamalli úreltri hugmyndafræði sem þarf að endurskoða í heild sinni í ljósi breytinga á samfélagsgerðinni?