151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Svar mitt er já og nei. Atvinnuleysistryggingakerfið er til þess að grípa þá sem þurfa á því að halda tímabundið vegna þess að þeir misstu starf sitt og með því sína framfærslu. Það er tilgangur þess kerfis. Eigum við að fara inn í einhvers konar aðra útgáfu eins og ég veit að flokkur hv. þingmanns, Píratar, hefur verið mikið að tala fyrir, þ.e. einhvers konar borgaralaun? Það getur vel verið. Þess vegna segi ég já, mögulega. En ég held samt að við þurfum líka að hafa þetta öryggisnet til hliðar. Ég held að við þurfum að hafa það með.