151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að spurning hv. þingmanns sé rétt spurning um rangan hlut. Ég ætla að reyna að tala skýrt. Það er mjög erfitt að gagnrýna heildarskipulag atvinnuleysistryggingamála í 15 mínútna ræðu, sérstaklega að reyna að koma einhverju öðru að í leiðinni. En punkturinn sem ég var að reyna að koma á framfæri í ræðunni er að það er óhagkvæmt að neyða fólk til að taka þeirri vinnu sem býðst. Það er hreinlega óhagkvæmt. Það skilar minni hagkvæmni fyrir samfélagið, fyrir hagkerfið í heild sinni, en það að gefa fólki aðeins meira frjálsræði.

Nú vill þannig til að ég er hlynntur frjálsum mörkuðum. Ég er svolítið á þeirri línu að ef fólk telur sig ekki þurfa að vinna þá eigi ekki að neyða það til þess. En fólk mun líklegast þurfa að vinna á einhverjum tímapunkti, ef ekki með beinum hætti þá óbeinum, þ.e. ef ekki vegna þess að það vill vinna þá vegna þess að það klárar hreinlega peningana sína. Það er ljóst að margar breytingar hafa átt sér stað í samfélaginu á undanförnum árum sem gerir að verkum að framleiðni hagkerfisins í heild er miklu meiri en hún var fyrir 50 eða 100 árum. Við erum ekki komin á þann punkt að enginn þurfi að vinna til þess að allir geti borðað. Við getum ekki sagt algjörlega 100%: Gefum þetta allt frjálst. Ég er aftur á móti sammála þeim hugmyndum að fara að gera tilraunir með að minnka vinnuþörfina hjá öllum á jafnræðisgrundvelli með einhverri grunnframfærslu eða einhverju álíka. Ég er ekki sannfærður um að við séum endilega komin á þann stað að það gangi upp fyrir alla og fyrir heilu hagkerfin. En stytting vinnuvikunnar og þess háttar atriði eru orðin tímabær og tilraunir með þetta eru orðnar tímabærar. (Forseti hringir.) Hvort það passi inn í núverandi skipulag atvinnutrygginga? Svarið er nei. Við þurfum að endurhugsa þetta allt saman og það var kjarninn í ræðu minni.