151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður, sem ég þakka fyrir svarið, setur málið fram þá er örugglega hægt að fullyrða að leti geti verið hvati að ýmsum nýjungum, ég tala nú ekki um ef það er til að létta manni lífið með einhverjum hætti eða auðvelda manni störfin. Ég held reyndar að í því tilviki sem hv. þingmaður vitnar til sé líka einhvers konar innri sköpun sem gerir það að verkum að maðurinn í þessu tilviki sá tækifæri til að skapa eitthvað, búa til eitthvað til að létta sér verkin. En hvað veit ég?

Það er hins vegar mjög mikilvægt þegar við ræðum um námsmenn og rétt þeirra til bóta eða tryggingar á framfærslu, hvað sem við köllum það nú, að það er ákveðinn kostur að námsmenn vinni með skóla, þ.e. þeir sem það geta og vilja. Það er líka ákveðinn félagslegur þáttur í því að mæta til vinnu og framfleyta sér, það er hvati líka að búa sér til einhver verðmæti með því að mæta í vinnuna og sjá hvernig það skapar tækifæri til þess að gera annað. En það er hins vegar að sjálfsögðu orðið erfitt þegar vinnan er farin að koma niður á náminu af því að við erum að hvetja fólk til að mennta sig til þess að það geti skapað eitthvað, búið til eitthvað og tekið samfélag okkar áfram fram í nýja öld og næstu tíma. Það er það sem við viljum að gerist. Við megum ekki hafa okkar kerfi eða umhverfi þannig að áhyggjur þeirra sem vilja mennta sig af því hvernig þeir geti framfleytt sér, hvort sem þeir missa atvinnu tímabundið meðan þeir eru í námi eða hvernig það er, verði til þess að draga úr vilja fólks til að fara í nám.