151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ágætisræðu. Hann fór yfir nokkuð góða þætti. Það sem ég hjó eftir var að námsmenn eru eldri á Íslandi en í viðmiðunarlöndunum, getum við sagt, og eru lengur í námi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það, hvort það sé raunveruleg ástæða þess að ekki sé farin sú leið að hækka framfærslu námsmanna. Nú var nýjustu lögunum um sjóðinn, ef ég man rétt, ætlað að umbuna nemum sem kláruðu nám á tilskildum tíma þannig að ég er að hugsa hvort þetta geti hangið einhvern veginn saman. Ég er alls ekki að verja það en ég er að reyna að fá mynd af því hvernig þetta lítur út.

Hitt er að aðeins var rætt um störf fyrir námsmenn sl. sumar. Þá virtist vera svo að störfin væru of sérhæfð þannig að það þyrfti sérhæfða menntun oft og tíðum til að sinna þeim. Þess vegna tókst ekki eins vel til og lagt var upp með og það segir mér kannski að þar séu einhverjir fjármunir sem ekki fóru í það úrræði. Því er það fé ekki notað nú? Það er kannski þetta tvennt til að byrja með.