151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir spurningarnar. Jú, auðvitað er það þannig í öllu starfi íþróttafélaga að samkeppni er jafnvel á milli hverfa eða bæjarhluta, íþróttafélaga, að sjálfsögðu, og landshluta o.s.frv. Menn halda með sínu liði. Það er auðvitað greypt í mannssálina og mannkynið að vera í einhverju liði. Við höfum kynnst því á Alþingi að menn eru í mismunandi flokkum og takast á og stundum þó að menn séu jafnvel sammála öðrum þá gera þeir allt fyrir sitt eigið lið.

Hv. þingmaður spurði um togstreituna. Auðvitað á þessi starfsemi, íþróttir, æskulýðsstarfsemi, skátar, KFUM, íþróttafélög, skák, þ.e. starf meðal barna og unglinga, að vera undir sama hatti vegna þess að allt stefnir þetta í sömu áttina. Það stefnir í þá átt að þroska börnin og fá þau til að efla sinn félagslega þroska og starfshæfni, hreyfigetu, þjálfa hugann o.s.frv. Auðvitað á þetta allt að vera undir sama hatti hjá ríkinu þegar kemur að því að ríkisvaldið styðji við bakið á slíkri starfsemi, hvar sem hún er og undir hvaða formerkjum sem hún er. Auðvitað á að gera ákveðnar kröfur um að það sé gert faglega og menn séu menntaðir o.s.frv. En í grunninn er þetta allt að fara sömu leið; að þroska ungmennin og þroska börnin. Ég nefndi skátastarfið sem mér finnst vera heillandi þó að það sé orðið töluvert gamaldags, enda komin 110 ár síðan hreyfingin var stofnuð. En hugmyndin er góð, þ.e. að börn læri af því að framkvæma hlutina.