151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[21:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi nútímann, sem veldur okkur auðvitað áhyggjum að ýmsu leyti. Nútíminn er trunta. En ég hvet hv. þingmann til að gefast ekki upp í baráttunni fyrir því sem hefur sannað gildi sitt í ár og áratugi og jafnvel árhundruð, þessi grundvallargildi sem hafa reynst okkur vel. Í annarri umræðu hér áðan voru haldnar nokkrar allsérkennilegar ræður þar sem menn voru meira að segja farnir að lofsyngja leti og setja út á fyrirbærið vestrænt vinnusiðferði eða vinnusiðferði mótmælenda, nokkuð sem hefur reynst Íslendingum, ekki hvað síst, ómetanlegt við að byggja upp samfélag hér um aldir og ná ótrúlegum árangri. Allt of margir eru hættir að virða þessi grundvallargildi, það sem hefur reynst okkur best. En hv. þm. Brynjar Níelsson má ekki gefast upp í baráttunni. Hv. þingmaður verður að halda áfram baráttunni fyrir frelsi og öðrum þeim grundvallargildum sem hafa byggt upp þetta samfélag og reynst vel. Það eru á margan hátt erfiðir tímar hvað það varðar að koma á framfæri skiljanlegri pólitík, útskýra hvað snýr upp og niður, en hv. þm. Brynjar Níelsson má alls ekki gefast upp á tilraunum til þess.