151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[22:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að koma hingað upp og ræða um þetta mál um raforkulög. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson fór yfir minnihlutaálit sem við báðir skrifuðum undir. Hægt hefði verið að taka á fleiri þáttum og í ræðu framsögumanns meiri hlutans, hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, kom fram að það var ýmislegt sem hefði mátt taka meiri tíma í.

Mig langar til að segja það hér að raforkumál okkar Íslendinga eru eitt af grundvallarmálum okkar til að eiga gott og farsælt líf á Íslandi. Þetta er mjög stórt mál, ég myndi segja eitt af jafnréttismálunum í þjónustu við fólk á landsbyggðinni. Landsbyggðin hefur farið frekar halloka í afhendingaröryggi raforku í gegnum árin, landshlutar eins og Norðausturland, sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson er þingmaður fyrir, og síðan Norðvesturland þar sem sá sem hér stendur er þingmaður. Það kom einmitt fram fram í ræðu þingmannsins að þar er mörgu ábótavant. Minnst var á hið vonda veður sem var hér veturinn 2019 og sló út rafmagni víða á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Þá kom í ljós ýmislegt sem betur hefði mátt fara í afhendingaröryggi raforku sem að mínu áliti hefði verið hægt að taka á löngu fyrr, t.d. bara yfirbygging á tengivirkjum, gamlar línur í sveitum og annað slíkt, sem hafði í raun og veru verið frestað allt of lengi. Ég hefði viljað sjá tekið myndarlega á því í þessu máli. Þarna er talað um sjálfbærni og afhendingaröryggi sem er mjög gott mál en lendingin í því hefði kannski mátt vera skýrari.

Ég tek svo aðeins þá jákvæðu punkta sem eru þarna, eins og t.d. útblástur hjá stórnotendum eins og Elkem á Grundartanga og víða sem hafa í mörg ár talað um að fá að nýta þá orku sem er í útblæstri frá þessum iðnaði til eigin nota í einhverju formi, annaðhvort raforku eða varma eða öðru slíku. Þarna er tekið jákvætt á þeim málum. Það er búið að bíða svolítið lengi eftir því. Svo er það stofnun Landsnets, að það verði í eigu ríkis og sveitarfélaga. Það er jákvætt. Það er því margt gott þarna en það hefði líka mátt ljúka málinu á vandaðri hátt.

Af því að ég minnist á Vestfirði þá höfum við lagt fram mál sem fjallar um hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum þar sem hv. þm. Bergþór Ólason er framsögumaður. Það er mjög brýnt að Vestfirðir fái einhvers konar úrbót sinna mála í raforku. Baktryggingin á raforku þeirra eru varaaflstöðvar. Við vitum að virkjun sem var áformuð fyrir vestan var slegið á frest út af álitamálum um umhverfismál, mjög sorglegt að það skyldi fara svoleiðis en vonandi verður það tekið upp fljótlega. Af nógu er að taka ef á að bæta úr þessum málum. Mér hefði fundist að við hefðum sýnt meiri reisn ef við hefðum tekið myndarlega á þeim málum.

Að þessu sögðu langar mig að ljúka ræðu minni með því að segja: Þetta er gott mál. Þetta er mál sem hefði verið hægt að fara dýpra í, leggja meiri tíma í það, það hefði þurft að koma miklu fyrr fram. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólafs Ísleifssonar áttum við okkur ekki alveg á því af hverju það þurfti að fá þessa afgreiðslu áður en því öllu var lokið.